Passíusálmar í hádeginu

07. mars 2021
Hallgrímur Pétursson var aðalpoppari Íslendinga í þrjár aldir. Hann hefur jafnvel verið kallaður fimmti guðspjallamaðurinn. Passíusálmarnir sem hann samdi hafa verið sungnir og lesnir á föstutímanum fyrir páska. Af því sálmarnir voru fyrir lifendur voru þeir gjarnan lagðir á brjóst látinna. Þeir voru Íslandsguðspjall. Eiga þessir sálmar enn erindi? Já, ef í þeim býr máttur til varpa ljósi á mennsku og mannlíf. Það besta úr lífi og list fortíðar er klassík sem sprengir fjötra tímans og nærir líf.

Í Hallgrímskirkju eru Passíusálmar lesnir í hádeginu. Virku dagana, frá mánudegi til föstudags, er einn passíusálmur lesinn kl. 12. Við upphaf og eftir lesturinn leikur Björn Steinar Sólbergsson á orgelið tónlist við hæfi.

Í Passíusálmunum fimmtíu er Jesús Kristur í hlutverki himinveru sem kemur og þjónar. Ástin en ekki dauðinner frumþáttur í lífsskoðun Passíusálmanna. Jesús kom ekki til að deyða heldur leysa menn og heim til lífs, frelsa frá vonleysi og þjáningu. Passíusálmar eru ekki bók um myrka trúarafstöðu. Sálmarnir eru ástarsaga, margþætt og bjartsýn saga um afstöðu Guðs og raunhæfar aðgerðir. Í orðahafi Passíusálmanna er grunnstefið að Guð elskar. Það er fagnaðarerindið. Jesús er ástmögur sem tjáir að lífið er elskulegt og að eftir dauða er líf. Hallgrímur var vinur og aðdáandi þess Jesú Krists sem kveikir það líf.

Verið velkomin í Hallgrímskirkju til íhugunar í hádeginu.