Prédikun seinasta sunnudags

27. ágúst 2016
Prédikun 21. ágúst 2016 í Hallgrímskirkju. Inga Harðardóttir Cand.theol flutti. Í hans heimi eru allir vinir
Fyrir fjórum árum – upp á dag- fékk ég dreng í fangið mitt í fæðingarlaug í sólbjartri stofunni heima. Þvílíkt undur að fá slíkt kraftaverk í hendurnar – þvílík óverðskulduð ástargjöf frá skaparanum að vera treyst fyrir nýju lífi. Og stuttu seinna var drengurinn borinn til skírnar í sömu stofu – frá fæðingarlaug jarðneska lífsins að skírnarlaug eilífa lífsins þar sem allir viðstaddir umvöfðu hann elsku og góðum óskum um hamingjuríka vegferð á lífsgöngunni. Hann þurfti ekki að gera neitt – bara vera til – og allir elskuðu hann og elska hann enn! Og nú trítla litlu tásurnar á leiðinni til þroska og vaxtar – stóru brúnu augun hans sjá alla, brosið hans nær til allra og gefur honum aðgang að ótrúlegasta fólki. Hæ – hvað heitirðu? er spurning sem heyrist oft á dag. Afgreiðslufólk, bílstjórar, ferðamenn, nágrannar, útigangsfólk – allir fá sömu spurningu frá unga manninum – sama brosið og viðurkenningu á tilvist sinni í stóru augunum hans. - Í hans heimi eru nefnilega allir vinir.
En það er ekki sami heimur og Omran jafnaldri hans býr við í Aleppo. Stóru brúnu augun hans Omran hafa séð hörmungar sem við á friðsæla Íslandi getum ekki ímyndað okkur. Steingrár, blóðugur og umkomulaus horfir hann hræddum augum sínum inn í okkar heim - og það nístir hjarta okkar. Í heimi Omrans eru ekki allir vinir.
,,Ég ákvað að fara til Íslands af því á Íslandi eru ekki þessi vopn. Það var fyrsta ástæðan,“ segir Maher Al Habbal, sem flúði stríðsátökin í Sýrlandi. Þegar allt annað var horfið frá honum var það þetta sem skipti máli; friður, öryggi og hamingja. Frásögn Maher af flótta hans frá Sýrlandi til Íslands er ótrúleg – þið vitið – þegar sannleikurinn er svo fáránlegur að ef sama saga væri sögð í bíómynd myndi maður ekki trúa henni. En sagan hans Mahers er sönn! Brúnu augun hans Mahers hafa séð friði og öryggi útrýmt á fáranlega skömmum tíma. Hann hefur ferðast við illan leik frá rjúkandi rústum Sýrlands hingað í Álftamýrina. Hann er á lífi, börnin hans eru á lífi og konan hans er á lífi. Í heimi Mahers er helvíti ekki óraunverulegur handanveruleiki heldur raunveruleiki sem hann hefur sloppið frá við illan leik.
En hvað er að gerast í heiminum okkar? Mér líður stundum þessa dagana eins og heimurinn okkar sé að sjúgast inn í andhverfu sína, hann sé á röngunni, Upside Down. Vopnin flæða um heiminn og aldrei í sögu mannkyns hafa jafn margir verið á flótta. Fréttir af fjöldamorðum, skotárásum og sjálfsmorðssprengjum heyrast daglega. Kynþáttaofbeldi er að ná nýjum hæðum vestanhafs og fjöldahreyfingar fólks sem fara ekki dult með ótta sinn og andúð á útlendingum ná fótfestu, líka hérna heima hjá okkur. Og gagnvart öllu þessu finn ég mig vanmáttuga og fyllist vonleysi. Í heiminum okkar eru ekki allir vinir – langt í frá – en það var það heldur ekki á tímum Jesú.
Á tímum Jesú var ólga í samfélaginu og ágreiningur milli ólíkra þjóða. Það var líka alsiða að sniðganga sjúka, fátæka og óhreina, að fordæma og grýta, útskúfa og einangra fólk. Það voru stríðandi fylkingar, her og uppreisnarmenn. Og í því samhengi skulum við skoða guðspjall dagsins.
Guðspjall dagsins segir frá samtali, þar er spurt um eilífa lífið og samtalið snýst yfir í frásögn Jesú af ferðalagi milli Jerúsalem og Jeríkó. Á þeirri ferð gerist atvik sem því miður var algengt á þessum slóðum – en það óvanalega er að einn horfir sínum augum á þetta atvik og dregur upp mynd af því sem hefur lifað síðan. Augu Jesú líta aldrei undan, þau taka ekki mark á meðvirkni, hræðslu, afsökunum eða leti. Þau afhjúpa okkur og okkar innsta eðli – okkar nakta sjálf – hver við raunverulega erum þegar allt kemur til alls. Jesús er í guðspjalli dagsins spurður, ekki af einlægni heldur slægum ásetningi, um hvernig maður öðlist eilíft líf en Jesús lætur löglærða manninn finna svarið hjá sjálfum sér. Elska skaltu Drottin Guð þig af öllu hjarta þínu og öllum mætti þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig. Eilífa lífið er fólgið í ástinni, í elskunni, í kærleikanum. En þá er spurt - Hvernig virkar eilífa elskan í jarðneska lífinu– hver er náungi minn? Hver kemur mér við? Þá segir Jesús þessa mögnuðu sögu sem við þekkjum öll svo vel – af manninum sem féll í hendur ræningjum. Þeir sem hefðu átt að rétta hjálparhönd, presturinn og levítinn, gerðu það ekki heldur litu undan en sá sem hefði átt að vera alveg sama um þennan auma óvin, Samverjinn, hann lét sér annt um hann, hann dröslaði honum á fætur og kom honum í skjól.
Það er svo nístandi að ímynda sér að vera skilinn eftir – ekki bara lemstraður og sár, heldur líka nakinn og umkomulaus á almannfæri. Í rústum lífs síns. Omran og fjölskylda hans hefur upplifað það á bókstaflegan hátt. Maher og stelpurnar hans líka og þó við munum vonandi aldrei upplifa stríð á eigin skinni munum við sennilega öll á einhverjum tímapunkti lífs okkar finnast við vera svipt öllu, missa allt, og upplifa að standa í rústum lífs okkar þegar ekkert verður nokkurntímann aftur eins og það var. Þegar sjálfið okkar liggur nakið og sárt þá megum við samt treysta því að það er einn sem kemur, einn sem gengur aldrei fram hjá okkur þegar við erum umkomulaus og ósjálfbjarga.
Textar dagsins tala mjög sterkt inn í veruleika okkar í dag. Á ég að gæta bróður míns? Hver er náungi minn? Hver er vinur í mínum heimi?
Við þurfum í dag að spegla okkur í spurningum sem varða kjarna samfélagsins og kjarna sjálfsmyndar okkar en það eru líka skýr svör við spurningunum. Eilífa lífið er að elska. Að elska Guð og aðra menn og sjálfan sig. Þegar heimurinn er á röngunni og það eina sem við sjáum er vonleysi og óöld þá er eina svarið kærleikur. Og krafan er skýr – þetta er engin kandíflosskærleikur sem leysist upp þegar á reynir – nei, þetta er afl elskunnar sem er sterkara en hatrið, sem ber ljós þar sem myrkur er og stígur inn í aðstæður annarra án þess að spyrja spurninga, dæma eða skilyrða.
Þér elskuðu – elskið hvert annað segir í pistlinum. Elskum hvert annað - og meðtökum elsku Guðs. Meðtökum að við erum stórkostlegt innlegg í tilveruna, við erum hvert og eitt megnug í okkar lífi að hjálpa hvert öðru, að auðga samkennd og kærleika og halda frá kulda og hatri. Hver erum við þegar allt kemur til alls? Hver erum við bakvið stílinn, fötin, varalitinn, menntunina, vinnutitilinn, hlaupajakkann eða gönguskóna? Hver er ég inn í mér? Brúnu augun eru þau sömu í Aleppo og Reykjavík, hjörtun slá eins í Sýrlandi og Íslandi.
Þegar maður er með nýtt líf í fanginu þá verður stóra samhengið svo mikilvægt. Hvernig aðstæður fær þessi undursamlega nýja manneskja að búa við? Hvernig ætlum við að fara með þá ábyrgð að vera treyst fyrir lífinu sjálfu? Þau eru lánsöm börnin sem fæðast á Íslandi, þau fæðast í friðsamt og öruggt samfélag. Þeirra vegferð á lífsgöngunni mun auðvitað vera allskonar en við vonum og biðjum að þau munu ekki þurfa að upplifa sprengjugný, þau munu ekki vera í hættu á að vera rænt, börnin okkar fá að lifa og leika, þroskast og eflast í umhverfi sem er friðsælt og öruggt. Það er alveg nóg af öðrum mannlegum harmleikjum sem börnin okkar þurfa að takast á við en hér er friður. Og ég deili þeirri ósk með ykkur öllum hér inni að í þeirra heimi geti allir verið vinir.
Þið elskuðu – elskum hvert annað! Pössum upp á hvert annað, látum okkur annt um hvert annað. Og spurningu dagsins verðum við að leita svara við hjá okkur sjálfum. Hver er náungi minn? Hver kemur mér við? Hver er vinur í mínum heimi?