Prédikunarstóllinn / 16, nóvember 2025 / Móðurmálið mitt

17. nóvember

Móðurmálið mitt
Messa sunnudaginn 16. nóvember 2025 kl. 11 á Degi íslenskrar tungu
Prédikun Sr. Eiríks Jóhannssonar prests í Hallgrímskirkju

Lexía: Sef 3.14-17
Hrópaðu af gleði, Síonardóttir!
Fagnaðu hástöfum, Ísrael!
Þú skalt kætast og gleðjast af öllu hjarta,
dóttirin Jerúsalem.
Drottinn hefur ógilt refsidóminn yfir þér,
hann hefur hrakið fjendur þína á brott.
Konungur Ísraels, Drottinn, er með þér,
engar ófarir þarftu framar að óttast.
Á þeim degi verður sagt við Jerúsalem:
„Óttastu ekki, Síon,
láttu ekki hugfallast.
Drottinn, Guð þinn, er hjá þér,
hin frelsandi hetja.
Hann mun fagna og gleðjast yfir þér,
hann mun hrópa af fögnuði þín vegna eins og á hátíðisdegi
og hugga með kærleika sínum

Pistill: Heb 3.12-14
Gætið þess, bræður og systur, að hafa ekkert illt í hjarta og láta engar efasemdir bægja ykkur frá lifanda Guði. Uppörvið heldur hvert annað hvern dag á meðan enn heitir „í dag“, til þess að enginn forherðist af táli syndarinnar. Því að við erum orðin hluttakar Krists svo framarlega sem við treystum honum staðfastlega allt til enda eins og í upphafi.

Guðspjall: Matt 25.1-13
Enn sagði Jesús: „Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar en fimm hyggnar. Þær fávísu tóku lampa sína en höfðu ekki olíu með sér en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum. Nú dvaldist brúðgumanum og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu.
Um miðnætti kvað við hróp: Brúðguminn kemur, farið til móts við hann. Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína. En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum. Þær hyggnu svöruðu: Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður. Meðan þær voru að kaupa kom brúðguminn og þær sem viðbúnar voru gengu með honum inn til brúðkaupsins og dyrum var lokað.
Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: Herra, herra, ljúk upp fyrir oss. En hann svaraði: Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.
Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Hafðu augun opin, farðu varlega, passaðu þig á bílunum, settu á þig húfu og vettlinga, ekkikoma seint heim, ekki keyra of hratt.

Ég hugsa að við höfum öll á einhverjum tíma heyrt einhver þessarra orða kannski öll og jafnvel sjálf notað þau við okkar börn og barnabörn.

Þegar maður er barn og unglingur þá getur þessi ofur verndun og afskiptasemi að eigin dómi verið einstaklega pirrandi. Síðan sem betur fer þá kemur sá tími að maður kann að meta þessa umhyggju og þann kærleika sem orðin endurspegla, þeim er ekki sama um mig. Og síðan fyrr en við er litið þá er maður sjálfur kominn í þessa stöðu sem maður þoldi ekki. Þetta er lífsins saga og hefur án efa verið nokkuð sú sama um aldir alda.

Og jafnvel þótt unglingurinn þoli ekki þetta að nafninu til þá innst inni finnur hann og veit að að baki býr ást og umhyggja. Og það læðir inn góðritilfinningu eins konar öryggiskennd, þeim er ekki sama um mig þau láta sér annt um mig.

Guðspjall dagsins er þessi dæmisaga Jesú um meyjarnar tíu, þeim var ætlað að ganga með brúðguma í eins konar skrúðgöngu með logandi ljós inn í brúðkaupsveisluna. Það er greinilegt að þær reikna með einhverri bið en vita þó ekki hversu löng sú bið mun verða. Þess vegna hafa sumar þeirra tekið með sér aukaglös af olíu en svo eru hinar sem ekkert hafa hugsað um það og ákveðið að taka bara því sem að höndum ber, hafa hugsað með sér að þetta hljóti allt að reddast. En reyndin verður sú að þetta reddaðist einmitt ekki, þegar stundin rann upp þá misstu þær af og fengu ekki einu sinni að koma inn.

Þessi dæmisaga kemur fyrir í guðspjallinu í flokki fleiri sagna undir lok boðurnartíma Jesú og skömmu áður en hin dramatísku endalok krossfestingar hefjast. Jesús hefur ferðast um landið og prédikað og unnið margvísleg krafta- og miskunnarverk. Í ljós kom að hans helstu andmælendur og að endingu þeir sem lögðu á ráðin um endalok hans, voru þeir sem best þekktu til ritninganna sem voru grundvöllur þeirra trúar. Þeir sem voru í flokki þeirra sem lifðu sig inn í lögmálin og töldu sig því á vissan hátt hafa höndlað sannleikann. Þegar þeim er bent á margvíslegan tvískinnung í þeirra túlkun og trúariðkun, hvernig þeir, margir hverjir, höfðu gert trúarsiðina að gróðavegi og valdatæki, þá reiddust þeir í stað þess að horfa í eigin barm og viðurkenna sannleikann í gagnrýnisorðunum.

Allar dæmisögurnar í þessum flokki fjalla um það hvernig fólk hefur á einn og annan hátt brugðist skyldum sínum, svikist um og fórnað meiri hagsmunum fyrir minni. Og afleiðingarnar geta orðið skelfilegar og enginn veit fyrir víst hvenær ólánið og hörmungarnar dynja yfir.

Hann bendir á það hversu mikilvægt það sé að halda vöku sinni og vera trúfastur í því sem máli skiptir, ekki gleyma sér í glaumnum, ekki horfa bara á eigin stundarhagsmuni heldur sjá hlutina í víðara samhengi og láta sér annt um náunga sinn.

Og þegar við hugleiðum þessi orð þá sjáum við að allt þetta á fullkomlega við enn í dag. Vísindi og þekking hefur sagt okkur nú um langt skeið að hætta vofi yfir vegna umgengni okkar við lífríkið og náttúruna. Ef á að takast að snúa þróuninni við þurfi allir að leggja sín lóð á vogarskálar stór og smá og það þarf að gjörbreyta mörgu í lífsstíl og hegðun. Við verðum að tileinka okkur nægjusemi og hófsemi og virðingu fyrir tilverurétti annarra lifandi vera. En þegar á reynir kemur í ljós að við erum flest orðin of værukær og kærulaus og nennum ekki að fara að breyta neinu. Síðan koma fram raddir sem þrá að komast í stjórnartauma og segja því fyrst og fremst það sem við viljum heyra og það er, að vísu með nokkurri einföldun þetta. Iss þetta er allt tóm þvæla þetta verður allt í lagi, þetta er ekkert annað en hræðsluáróður, þetta verður allt í lagi bara ef þið kjósið okkur. Þetta er einmitt það sem við viljum heyra. Eða hvað? Hver nennir að hlusta á niðurdrepandi raus um flókin hugtök eins og hamfarahlýnun, súrnun sjávar, líffræðilega einsleitni.

Í dag er dagur íslenskar tungu haldinn á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar eins hinna ástsælu skálda nítjándu aldar. Hann var mikill og hugmyndaríkur nýyrðasmiður. Á hans tíma streymdu fram alls kyns nýjungar sem enginn hafði áður haft hugmynd um og þess vegna þurfti mikið af nýjum orðum og í ljós hefur komið að þetta tungumál okkar hefur mikinn sveigjanleika og gefur kost á endalausum möguleikum á lýsandi orðum. Einmitt þannig þarf tungumál að vera, það er okkar dýrmætasta tæki til tjáskipta og upplýsingamiðlunar, nýjar aðstæður, ný tækni kalla á ný orð og nýja nálgun. Málshættir og orðtök sem eiga uppruna sinn atvinnuháttum sem enginn þekkir lengur eru dæmd til að deyja út, um leið koma ný inn og ný nálgun. Tungumálið er og á að vera eins og lifandi skjal sem stöðugt er í þróun og aðlögun. Verkefnið okkar er því að þróa það og útvíkka og laga að nýjum tímum en ekki að stoppa það upp eða frysta. En til þess að svo megi verða þurfum við að halda vöku okkar og gleyma ekki að taka með auka olíu á lampann, vera á verði og beita frjórri og skapandi hugsun, halda áfram að yrkja og semja og syngja og kveða og tala og lesa og skrifa. Já umfram allt að tala og tala saman, hlusta og gefa gaum, leitast við að skilja. Ekki fara léttu leiðina heldur bratta stíginn, krókóttu götuna, já klöngrast yfir klettabeltið, allt sem reynir á, bæði huga, hönd og fót og kallar á alla okkar orku til að skilja og rata og læra og muna og finna jafnvel að endingu gullið eða kannski ekki, heldur að hafa lært ómetanlega lexíu á ferðinni sjálfri.

Tungumálið er tæki til lærdóms og skilnings og slíkt verkfæri verður alltaf að vera af bestu gerð, brýnt og smurt, öflugt, en um leið, lipurt og fjölhæft og meðfærilegt. Við verðum að geta talað um og útskýrt og skilið, öll hin flóknu viðfangsefni sem við er að etja og engin auðveld leið er til framhjá. Láta ekki tælast eða blekkjast af einföldum brellum. Við ættum að minnast þess sem segir í gamalli vísu að hálfsannleikur oftast er óhrekjandi lygi.

Tungumál heimsins eru mörg og öll eiga þau sína sögu og eru merkileg, okkar tungumál er íslenska það er okkar móðurmál og það er og verður í öllum tilvikum þannig að móðurmálið okkar er það tungumál sem næst okkur stendur, jafnvel þótt við lærum mörg önnur. Það er á móðurmálinu sem við höfum mesta getu til að tjá okkur á fjölbreytilegan hátt. Hvað ungur nemur, gamall temur og þó hinum ungu leiðist stundum að láta minna sig á þá er nú nokkuð til því sem oft var sagt að oft er gott það sem gamlir kveða. Og það er með tungumálið okkar ekki ósvipað því sem er með okkar eigin fjölskyldu, við elskum okkar fólk og viljum því allt hið best um leið og við vitum að hún er í sjálfu sé ekkert merkilegri en aðrar góðar fjölskyldur.

Við verðum að vaka og vera við öllu búin, tilbúin að bregðast við, jafnvel því sem enginn býst við. Besta tækið til þess er opinn og skapandi hugur. Kjarngott og notadrjúgt tungumál. Mál sem við getum orðað öll hin mismunandi blæbrigði tilfinninga og skoðana.

Orðræða sem lýsir og leitast við að draga upp svarthvíta, einfaldaða mynd af hinum margvíslegu fyrirbærum mannlífs og náttúru er álíka gagnleg og að halda því fram að jörðin sé flöt. Verum því stöðugt á verði gagnvart innantómum slagorðum, blekkingum og einföldun flókinna staðreynda.

Vökum og biðjum, vökum og lærum, vökum og reynum að skilja.

Sú aðferðarfræði sem Kristur kennir okkur er að hafa augun á aðalatriðum og grundvellinum. Ekki að festast í gömlum klisjum eða hengja sig á stakan bókstaf í helgri ritningu, heldur að gefa gaum að samhengi og þeim sannleik sem Kristur leitast stöðugt við að minna á í sinni orðræðu. Hans áminning og leiðsögn liggur í því að leitast við að þjóna kærleikanum og friðnum og umhyggjunni. Virðingunni fyrir öðru fólki, þjóna frelsinu, rétti okkar hvers og eins til að vera við sjálf.

Á líðandi stund er margt sem glepur, hún líður hratt stundin og fyrr en varir er kannski olían búin á lampanum.

Rétt eins og ástríkt foreldri minnir unglinginn á þá minnir Jesús kristur okkur á að vera á verði og láta ekki glepjast en hann segir líka um leið, óttist ekki, því ég er með ykkur allt til enda veraldar. Það er því óhætt að stíga fram með djörfung með okkar móðurmál að vopni og standa með lífinu og sannleikanum, vinna að friðarást og kærleika. Í Jesú nafni amen.