Prédikunarstóllinn / 22. júní 2025 – Hver tekur mark á góðum ráðum?

27. júní
Prédikanir og pistlar, Prestar

Hver tekur mark á góðum ráðum?
Prestur: Eiríkur Jóhannsson

Textar dagsins:
1.sunnudagur eftir þrenningarhátíð

Lexía: 5Mós 15.7-8, 10-11
Ef einhver bræðra þinna er fátækur í einni af borgum þínum í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér skaltu ekki loka hendi þinni fyrir fátækum bróður þínum með harðýðgi heldur skalt þú ljúka upp hendi þinni fyrir honum. Þú skalt lána honum það sem hann skortir.

Þú skalt gefa honum fúslega en ekki með ólund því að fyrir það mun Drottinn, Guð þinn, blessa öll þín verk og hvað sem þú tekur þér fyrir hendur. Því að aldrei mun fátækra vant verða í landinu og þess vegna geri ég þér þetta að skyldu: Ljúktu upp hendi þinni fyrir meðbræðrum þínum, fátækum og þurfandi í landi þínu.

Pistill: 1Jóh 4.16-21
Við þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á okkur, og trúum á hann.
Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum. Fáum við elskað hvert annað og lifað eins og Kristur lifði hér á jörð, verðum við full djörfungar á degi dómsins. Ótti er ekki í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann. Því að óttinn býst við hegningu en sá sem óttast er ekki fullkominn í elskunni.
Við elskum því að Guð elskaði okkur að fyrra bragði. Ef einhver segir: „Ég elska Guð,“ en hatar trúsystkin sín er sá lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn eða systur,
sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð sem hann hefur ekki séð. Og þetta boðorð höfum við frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn og systur.

Guðspjall: Lúk 16.19-31
Jesús sagði þeim þessa dæmisögu: „Einu sinni var maður nokkur ríkur er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði. En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus. Feginn vildi hann seðja sig á því er féll af borði ríka mannsins og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans. En nú gerðist það að fátæki maðurinn dó og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn.
Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans. Þá kallaði hann: Faðir Abraham, miskunna þú mér og send Lasarus að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína því að ég kvelst í þessum loga.
Abraham sagði: Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði meðan þú lifðir og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður en þú kvelst. Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli vor og yðar svo að þeir er héðan vildu fara yfir til yðar geti það ekki og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor. En hann sagði: Þá bið ég þig, faðir, að þú sendir hann í hús föður míns, en ég á fimm bræður, til þess að vara þá við svo þeir komi ekki líka í þennan kvalastað. En Abraham segir: Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim. Hinn svaraði: Nei, faðir Abraham, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dauðu mundu þeir taka sinnaskiptum. En Abraham sagði við hann: Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum láta þeir ekki heldur sannfærast þótt einhver rísi upp frá dauðum.“

Hver tekur mark á góðum ráðum?
Náð sé með yður og friður, frá guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Á hverju tökum við mark og hverju ekki? Þessi spurning kom upp í hugann þegar guðspjallstexti dagsins var lesinn. Við heyrum svo margt og sjáum um allt það sem á að vera til bæta lífið, vera til heilsubótar og stuðlandi að góðri heilsu og vellíðan. Það er endalaust framboð af námskeiðum og bókum og öppum sem eiga að hjálpa fólki að tileinka sér heilsusamlegri lífsstíl. Við erum flest uppfull af góðum áformum en oft verður minna um efndirnar. Yfirhöfuð er enginn skortur á góðum ráðum, hvorki þá né nú.

Guðspjallið segir þessa þekktu dæmisögu Jesú um ríka manninn og Lasarus. Annar hvílir í faðmi Abrahams en hinn má þola píslir í víti. Þetta er í fljótu bragði saga um þann dóm sem bíður allra þeirra sem kveðja þetta líf. Og þá muni þeir sem allt höfðu fengið í þessu lífi fá að gjalda þess í hinu næsta og þeir sem einskis góðs nutu þeir muni fá margföld verðlaun á himnum.

En er þetta endilega saga um dóma og örlög handan lífs og dauða?

Aðdragandi þessarrar dæmisögu var orðaskipti við faríseana sem eru sagðir hafa verið fégjarnir og raunar höfðu þeir lagt það þannig út að veraldleg velgengi væri til marks um velþóknun Guðs. En Jesús hafði talað um trúmennsku og mikilvægi þess að vera trúr í stóru sem smáu sá sem ekki er trúr í því smæsta er ekki líklegur til þess að vera trúr í því stærsta.

Maður getur velt því fyrir sér hvort hér sé ekki einmitt verið að tala um mikilvægi þess að láta sig varða um hag náungans, það sem maður gerir eða gerir ekki það hefur áhrif, ekki aðeins gagnvart manni sjálfum heldur umhverfi manns og samfélagi. Sá sem lætur sig engu varða um hag þeirra sem í kringum þá eru og hugsar ekki um neitt annað en eigin hag hann getur heldur ekki vænst þess að fá stuðning og hjálp ef svo kynni að fara að hann lenti í vandræðum sjálfur. Dæmisögur og ræður Jesú miða allar að því að vekja fólk, vekja það til vitundar um mikilvægi þess að standa saman og hjálpast að.

Menning og hugsun nútímans virðist mikið ganga út á þá nálgun að hver sé sjálfum sér næstur, en jafnvel hinir fornu textar Mósebóka sem við heyrðum lesið úr leggja áherslu á það að leggja þeim lið sem þurfa á hjálp að halda. Og ekki bara það heldur skiptir máli hvernig það er gert, ekki með nauðung heldur með gleði. Lokaðu ekki hendi þinni heldur ljúktu henni upp.

Við sjáum í þessu samhengi að margt af því sem Jesús segir og kennir það á sér samsvörun í hinum fornu ritum, enda sagði hann einmitt að ekki væri svo mikið sem stafkrókur fallinn brott úr lögmálinu. Það sem hann var stöðugt að gagnrýna var hins vegar hvernig menn höfðu umgengist þessi fornu lög og reglur, hvernig þar var valið og hafnað og haldið á lofti því sem hentar hagsmunum en hitt látið liggja í þagnargildi. Gegnumgangandi stef þar er til dæmis að gefa sérstaklega gaum að hag munaðarleysingjans, útlendingsins og ekkjunnar. En þetta eru einfaldlega dæmi um hópa fólks sem ávalt stóð höllum fæti og einkum vegna þess að þau áttu sér ekki neitt skilgreint bakland í samfélagi þar sem fjölskyldan og ættin veitti hið félagslega bakland. Þá má í þessu samhengi velta fyrir sér orðinu fjölskylda, fjöl skylda sú skylda að sinna þeim sem þar falla undir og tengjast.

Lykill alls þessa kemur skírlega fram í pistlinum en þar leggur postulinn áherslu á mikilvægi kærleikans. Og ekki síður leggur hann þar áherslu á það að í ljósi þess að vera hluti af ríki Guðs þá sé ekkert að óttast . Ótti er ekki í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann. Því að óttinn býst við hegningu en sá sem óttast er ekki fullkominn í elskunni.
Við elskum því að Guð elskaði okkur að fyrra bragði.

Þarna kemur fram þessi grundvallar skilgreining sem einnig er að finna í hinni mikilvægu játningu sem við köllum Litlu biblíuna og er að finna í Jóhannesarguðspjalli: „Svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf“.

Nei dæmisaga Jesú er ekki lýsing á aðstæðum fólks eftir dauðann heldur er hún sett fram til þess að benda á mikilvægi þess að við berum ábyrgð hvert á öðru og leitumst við að sjá til þess að engir Lasarusar liggi við húsdyr þeirra sem eiga nóg, í þeirri von að geta tínt upp í sig eitthvað af því sem fellur af alsnægtaborðum þeirra.

Staðreyndirnar í nútímanum tala sínu máli og lýsa því greinilega að eftir því sem bilið vex milli þeirra sem hafa nóg og hinna sem lítið hafa þá vex spennan og hætta á átökum, glæpum og spillingu.

Hún bendir líka á þá grátlegu staðreynd að jafnvel þótt við vitum og sjáum og heyrum þá tökum við ekki mark á því, sérstaklega ef við teljum að það þjóni ekki hagsmunum okkar. Þess vegna er það sem Abraham segir við ríka manninn nei það hefur enga þýðingu þótt þú færir og fengir að tala við bræður þína, hann er eiginlega að segja; þið vissuð þetta alt fyrirfram en þið kusuð að hafa það að engu. Það þjónaði ekki hagsmunum ykkar að gera það.

Þetta er það sem Jesú er að segja við viðmælendur sína sem höfðu hann að háði og spotti þegar hann fór að tala um mikilvægi þess að gefa þeim gaum sem höllum fæti standa. Það er ekki rétt að segja og dæma, líkt og við gerum svo oft sjálf, að aðstæður margra séu eiginlega bara þeirra eigin sjálfskaparvíti, þau geti sjálfum sér um kennt, þau drekka dópa spila fjárhættuspil taka smálán á okurvöxtum, nei þessu fólki er ekki við bjargandi. Þar að auki búum við í velferðarsamfélagi og þau fá örugglega sínar bætur. Eru ummæli af þessu tagi ekki einfaldlega til þess gerð að fyrra okkur ábyrgð?

Hér er okkur líka bent á það að það hefur afleiðingar hér og nú hvaða stefnu við tökum, hvaða ákvarðanir við tökum og skoðanir við kjósum að halda í heiðri og lyfta upp. Það hefur áhrif á samfélagið sem við lifum í, öryggið sem við búum við. Ekki frammi fyrir einhverjum dómi eftir dauðann heldur einmitt hér og nú. Ef undirstöður byggingar byrja að fúna þá er þess skammt að bíða að hún falli til grunna. Það er dómurinn sem yfir vofir. Það er eins og það gleymist að það er með hugmyndakerfi rétt eins og með áþreifanlega hluti eins og byggingar að þau þurfa viðhald, verst er þegar það góða sem tekist hefur að koma á er tekið sem sjálfsagður hlutur, en síðan einn góðan veðurdag er það allt í einu strikað út. Vandlæting, fordómar og óttastjórnun gýs upp eins og illgresi í næringarríkum garði. Allt hið holla og næringarríka sem þar átti að vaxa kafnar og deyr að lokum.

Postulinn bendir okkur á það hver undirstaðan er í ferð okkar í átt að hinu góða lífi og það er hin óttalausa elska, hún er límið sem bindur saman, hún er næringin sem gefur vöxtinn, hún er ljósið sem lýsir. Elskan sem kom frá Guði í upphafi. Er og verður um aldir alda. Amen.