Prédikunarstóllinn / 24. ágúst 2025 / Jesús grætur

03. september

Jesús grætur.

Prestur: Eiríkur Jóhannsson
Textar og prédikun. 24. ágúst.

10. sunnudagur eftir þrenningarhátíð.
Lexía: Jer 18.1-10
Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni: Farðu nú niður í hús leirkerasmiðsins. Þar mun ég láta þig heyra orð mín.
Ég gekk því niður til húss leirkerasmiðsins einmitt þegar hann var að vinna við hjólið. Mistækist kerið, sem hann var að móta úr leirnum, bjó hann til nýtt ker eftir því sem honum sýndist best.
Þá kom orð Drottins til mín: Get ég ekki farið með yður, Ísraelsmenn, eins og þessi leirkerasmiður gerir? segir Drottinn. Þér eruð í hendi minni, Ísraelsmenn, eins og leirinn í hendi leirkerasmiðsins.
Stundum hóta ég einhverri þjóð eða konungsríki að uppræta það, brjóta það niður eða eyða því. En hverfi þessi þjóð, sem ég hef hótað, frá illri breytni sinni iðrast ég þeirrar ógæfu sem ég hafði ákveðið að senda yfir hana.
Stundum heiti ég einhverri þjóð eða konungsríki að endurreisa það eða gróðursetja en geri hún það sem illt er í augum mínum án þess að hlýða boðum mínum iðrast ég hins góða sem ég hafði heitið að gera henni.

Pistill: Róm 9.1-5
Ég tala sannleika í Kristi, ég lýg ekki, samviska mín, upplýst af heilögum anda, vitnar það með mér að ég hef mikla hryggð og sífellda kvöl í hjarta mínu og gæti óskað að mér væri sjálfum útskúfað frá Kristi ef það yrði til heilla fyrir bræður mína og ættmenn, Ísraelsmenn. Þeir eiga frumburðarréttinn, dýrðina, sáttmálana,
löggjöfina, helgihaldið og fyrirheitin. Þeirra eru ættfeðurnir og af þeim er Kristur kominn sem maður, hann sem er yfir öllu, Guð, blessaður að eilífu. Amen.

Guðspjall: Lúk 19.41-48
Og er Jesús kom nær og sá borgina grét hann yfir henni og sagði: „Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi hvað til friðar heyrir! En nú er það hulið sjónum þínum. Því að þeir dagar munu koma yfir þig að óvinir þínir munu gera virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu. Þeir munu leggja þig að velli og börn þín sem í þér eru og ekki láta standa stein yfir steini í þér vegna þess að þú þekktir ekki þinn vitjunartíma.“
Þá gekk hann inn í helgidóminn og tók að reka út þá er voru að selja og mælti við þá: „Ritað er:
Hús mitt á að vera bænahús
en þér hafið gert það að ræningjabæli.“
Daglega var hann að kenna í helgidóminum en æðstu prestarnir og fræðimennirnir, svo og fyrirmenn þjóðarinnar, leituðust við að ráða hann af dögum en fundu eigi hvað gera skyldi því að allt fólkið vildi ákaft hlýða á hann.

 

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Margt fer öðruvísi en ætlað er og oft gerist það í lífi okkar að þrátt fyrir góð áform og góðan vilja þá fara hlutirnir á allt annan veg en ætlunin var og stefnt var að.

Í mörgum slíkum tilvikum þá neyðumst við til þess að horfa í eigin barm og viðurkenna að ástæðan sé sú að við sjálf brugðumst á einhvern hátt. Við gátum sjálfum okkur um kennt og engum öðrum.

Þrátt fyrir það er tilhneigingin gjarnan sú að horfa fram hjá þessari staðreynd og leitast í lengstu lög við að finna sökina hjá einhverjum öðrum.

Við sjáum það bæði í bókum og kvikmyndum að hegðun sögupersónanna er gjarnan skírð með reynslu viðkomandi úr barnæsku. Vissulega er það staðreynd og raunar grátleg staðreynd að áföll og erfið reynsla í bernsku hafa djúpstæð áhrif á tilfinningalíf og hegðun.

Á endanum er samt staðreyndin sú að við berum ábyrðina sjálf á okkar lífi og okkar gjörðum.

 

Í pistli sínum í dag talar postulinn Páll um samlanda sína, þá menn sem verið höfðu hans menn og samferðafólk, trúsystkin og skoðanabræður- og systur. En hann hefur stigið yfir í annan veruleika, hann hefur öðlast nýja sýn á lífið með því að meðtaka boðskapinn um Jesú Krist. Það er hans sannfæring að með Jesú Kristi hafi eiginlega orðið til nýr túlkunarlykill á tilveruna. Og hann í þessum orðum, má segja að hann gráti yfir þeirra forherðingu sem er að hans mati. Að geta ekki eða vilja ekki sjá það sem hann sér svo greinilega að ritningarnar á vissan hátt ljúkast upp á nýjan hátt með boðskap frelsarans og þess vegna verður að breyta mörgu því sem áður var tekið gott og gilt. En það er einmitt það sem þau vilja ekki. Þau sem ættu að hafa þekkinguna og hafa lifað og hrærst í þessum trúarheimi þau sem ættu að eiga auðveldast með að tileinka sér þennan nýja sannleika þau hafna því algerlega og verða hörðustu andstæðingar hins nýja.

En því er ég að dvelja við þetta að við getum á margan hátt séð samlíkingu við svo margt í okkar samtíma við einmitt þetta að vilja ekki horfast í augu við nýjan veruleika og í stað þess að leitast við að finna lausnir þá er skellt í lás og reynt að halda áfram eins og ekkert hafi skeð. Á þetta bæði við um lífsstíl okkar og skoðanir.

Á endanum verður til enn meiri vandi.

Þá getum við litið til orða Jesú sem guðspjallið greinir frá er hann stendur og horfir yfir borgina og grætur yfir því sem hann sér fyrir að muni þar gerast, hann grætur yfir því að þau sjá ekki hvað til friðar heyrir, að þau þekki ekki sinn vitjunartíma. Horfist ekki í augu við eigin ábyrgð. Hvað hann á nákvæmlega er að vísa til get ég ekki sagt en síðan stígur hann inn í musterið og sér hvernig búið er að gera helgihaldið þar að féþúfu forréttindastéttar. Og þegar hann orðar það og það er greinilegt að meirihlutinn leggur við hlustir þá er af öðrum farið að leggja drög að því að ráða hann af dögum.

Jesús grætur, er eitthvað fagnaðarerindi fólgið í því? Sagt er frá því tvisvar sinnum að hann gráti og hitt tilvikið er þegar hann fær fregnir af því að vinur hans Lasarus sé dáinn og hann sér sorg systra hans.

Svarið er já, sannarlega eru þessar frásagnir fagnaðarefni því gráturinn er tákn og vitnisburður samkenndar og kærleika. Honum er ekki sama, hann lætur sig varða, hann finnur til. Já þetta er sá guðdómur sem við beinum bænum okkar og lofgjörð til.

Sá guðdómur sem við játum birtist okkur því þannig í kærleika, líkt og ástríkt foreldri sem leitast við að beina barni sínu á réttar brautir, kenna því það sem máli skiptir en samt fyrst og fremst elskar barnið sitt sama hvað á dynur. Það er ekki að ástæðulausu sem guð hefur verið ávarpaður sem faðir eða móðir í gegnum aldirnar og við gerum enn í okkar helstu bæn.

Þversögnin í þessu öllu liggur samt í því að okkur er gefið frelsi til að velja, frelsi til að taka ákvarðanir um líf okkar, já frelsi til að gera bæði rétt og rangt. Frelsi til að gera mistök og lenda útaf brautinni. Það sem Kristur tók útúr jöfnu trúarinnar þess samhengis sem hann var sprottinn úr og tengdi vissulega sinn boðskap við, var hin harða krafa og raunar hótanir um harðar refsingar ef samningurinn væri ekki haldinn. Refsingar, bæði gegn heilli þjóð og einstaklingum. Því miður yfirsást mörgum kirkjudeildum þessi mikilvægi þáttur og héldu áfram að hóta helvítisvist og píslum. Vildu halda í og viðhalda eigin völdum yfir fólki og nota til þess óttann.

Kristur grætur vegna misgjörða, honum er ekki sama, hann vill að okkur vegni vel og okkur líði vel, en hann vill ekki svifta okkur frelsinu, í frelsinu felst líka möguleikinn á skapandi hugsun og skapandi lífi. En um leið möguleikanum á mistökum og misgjörðum.

Hér á Íslandi hefur kristin trú mótað menningu þjóðarinnar í rúm þúsund ár með kristninni kom ritmál og menntun svo eitthvað sé talið. Samt má kannski segja að hinn almenni maður á Íslandi hafi aldrei tengt sig sérlega sterkt við ákveðnar eða þröngar trúarkenningar eða stefnur.

En þegar allt kemur til alls þá á kirkjan samt sterk ítök í okkur flestum. Við vitum af henni, vitum að hún er til staðar. En þegar á bjátar, já þegar hún er tekin í burtu þá finnur fólk að eitthvað mikið vantar.

Þessa sjónarmiðs urðum við áþreifanlega áskynja í för okkar nokkurra héðan úr Hallgrímskirkju norður í Grímsey fyrir hálfum mánuði. Tilgangur fararinnar var að vera viðstödd vígslu nýrrar kirkju í Grímsey og um leið að afhenda með formlegum hætti nýjar kirkjuklukkur sem söfnuður Hallgrímskirkju færði Miðgarðakirkju og söfnuði hennar að gjöf.

Bæði heimafólk og brottfluttir, fundu sterkt hversu mikið var frá þeim tekið þegar kirkjan var ekki lengur til staðar eftir brunann skelfilega haustið 2021. Vissulega leggjum við áherslu á að það eru ekki bara húsin sem hýsa okkar trúariðkun sem er kirkjan, kirkjan er fyrst og fremst við fólkið sem skilgreinir sig sem hluta af því stóra safni sem kallast kristin kirkja. Eigi að síður er kirkjuhúsið mikilvægt tákn, það er tákn í sjálfu sér sem skjól og hlíf og sömuleiðis eru þar sett upp mikilvæg tákn trúarinnar er prédika til okkar með návist sinni og notkun. Altari, skírnarfontur altaristafla svo eitthvað sé upp talið.

Þetta er gömul saga og ný að við finnum oft ekki fyrir mikilvægi margs þess sem er í kringum okkur fyrr en það er tekið frá okkur, við tökum því sem sjálfsögðum hlut. En sú er einmitt ekki raunin.

Þannig er hin nýja kirkja sem reist er á lítilli eyju út við ysta haf mikilvægt tákn, ekki einungis fyrir þau sem þar búa heldur fyrir okkur öll. Fyrir velvild og stuðning fjölmargra víðsvegar að um landið var hún byggð og við hér söfnuður Hallgrímskirkju getum með stolti talið okkur þar með.

Kirkjan er því fagur vitnisburður um það hvernig hægt er að rísa upp og byggja upp að nýju þótt útaf bregði, þótt tjón verði. Með samhjálp og stuðningi er hægt að vinna kraftaverk.

Jesús Kristur grét yfir borginni fögru og enn í dag er sannarlega hægt að gráta yfir þeirri borg og landi. Þeim skelfilegu atburðum sem þar eiga sér stað. Það sem hann, okkar frelsari og lausnari færði okkur með sínum dauða og upprisu var einmitt að það er ávalt von það er aldrei allt tapað það er hægt að snúa við og byrja að byggja upp. Jesús grét og fann til og við öll já heimurinn allur þjáist og finnur til og einmitt þess vegna að til er fólk sem lætur sig varða um örlög annarra um líðan annara um líf annarra þá er von, von um frið, von um að um síðir muni rísa um veröld víða helgidómur friðar og sáttfýsi. Helgidómur sem nær frá ysta hafi til innstu dala stendur sterkur mót stóðviðrum, veitir vernd og skjól. Býr öllu sínu fólk aðstæður til að mega óhult fá að lifa, vaxa og dafna í friði og sátt. Biðjum þess ávalt að svo megi að endingu verða. Í Jesú nafni Amen.