Prédikunarstóllinn / 5. október 2025 / Heyrir einhver neyðarkall?

07. október
Prédikanir og pistlar

16. sunnudagur eftir þrenningarhátíð
Prestur: Sr. Eiríkur Jóhannsson

Lexía Jesaja. 26. 16-19
Drottinn, í neyðinni leituðum vér þín,
í þrengingunum, þegar þú refsaðir oss, hrópuðum vér til þín.
Eins og þunguð kona, komin að því að fæða,
hefur hríðir og hljóðar af kvölum,
eins vorum vér frammi fyrir þér, Drottinn.
Vér vorum þunguð, fengum hríðir
en það sem fæddist var sem vindur.
Vér færðum jörðinni enga hjálp,
engir jarðarbúar fæddust.
Menn þínir, sem dánir eru, munu lifna,
lík þeirra rísa upp.
Þeir sem í moldinni búa munu vakna og fagna.
Þar sem dögg þín er dögg ljóssins
mun jörðin fæða þá sem dánir eru.


Pistill: Ef 3.13-21
Fyrir því bið ég að þið látið eigi hugfallast út af þrengingum mínum ykkar vegna. Þær eru ykkur til vegsemdar.
Þess vegna beygi ég kné mín fyrir föðurnum, sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu, að hann gefi ykkur af ríkdómi dýrðar sinnar að styrkjast fyrir anda sinn að krafti hið innra með ykkur til þess að Kristur megi fyrir trúna búa í hjörtum ykkar og þið verða rótfest og grundvölluð í kærleika. Mættuð þið því geta skilið það með öllum heilögum hvílík er víddin og lengdin, hæðin og dýptin í kærleika Krists og fá að sannreyna hann, sem gnæfir yfir alla þekkingu, og ná að fyllast allri Guðs fyllingu.
En honum, sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gera langt fram yfir allt það sem vér biðjum eða skynjum, honum sé dýrð í kirkjunni og í Kristi Jesú með öllum kynslóðum um aldir alda. Amen.


Guðspjall: Lúk 7.11-17
Skömmu síðar bar svo við að Jesús hélt til borgar sem heitir Nain og lærisveinar hans fóru með honum og mikill mannfjöldi. Þegar hann nálgaðist borgarhliðið þá var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar sem var ekkja, og mikill fjöldi úr borginni var með henni. Og er Drottinn sá hana kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: „Grát þú eigi!“ Og hann gekk að og snart líkbörurnar en þeir sem báru námu staðar. Þá sagði hann: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“ Hinn látni settist þá upp og tók að mæla og Jesús gaf hann móður hans.
En ótti greip alla og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: „Spámaður mikill er risinn upp meðal okkar,“ og „Guð hefur vitjað lýðs síns.“
Og þessi fregn um Jesú barst út um alla Júdeu og allt nágrennið.

Heyrir einhver neyðarkall? 
Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Flest þekkjum við máltækið „Neyðin kennir naktri konu að spinna“ en þar er vísað til þess að þegar við mætum erfiðleikum þá leggjum við enn meira á okkur til þess að finna leiðir til bjargar, líkt og konan sem engin klæði á hún verður að finna og læra að gera sín föt.

Sömuleiðis er stundum tekið þannig til orða að þegar neyðin er stærst þá sé hjálpin næst. Hvað það er sem þarna býr að baki veit ég ekki fyrir víst en líklegt þykir mér að hér sé um að ræða einhvers konar hugsun í þá átt að á ögurstundum taki forlögin í taumana og sjái til þess að einhver úrlausn sé í boði. En svo er það líka gjarnan raunin að þegar eitthvað mjög afdrifaríkt á sér stað þá berst ýmis konar aðstoð og hjálp. Þetta höfum við hér á Íslandi margoft orðið vitni að og tekið þátt í, í tengslum við hinar ýmsu náttúruhamfarir.

Þessu til viðbótar má segja að það er mörg neyðin sem býr innra með einstaklingnum sem enginn annar veit af en hefur eigi að síður lamandi áhrif á líf og heilsu.

Þannig má segja að neyðin hafi margar birtingarmyndir. Mestu skiptir ávalt, hver heyrir, hvernig er brugðist við.

En því er ég að brydda upp á umræðu um þessi mál hér að textar dagsins úr ritningunni eiga það eiginlega sameiginlegt að fjalla um neyð og þrengingar af einhverju tagi. Spámaðurinn Jesaja sem mun víst samkvæmt fræðunum ekki vera einn einstaklingur heldur geymir þessi bók texta frá fleiri en einu tímaskeiði en þó eiga þeir flestir það sameiginlegt að flytja von inn í erfiðar aðstæður. Þetta svæði fyrir botni miðjarðarhafs hefur ekki bara nú um stundir verið ofurselt átökum og hörmungun heldur hefur það verið svo, að heita má um aldir og árþúsund. Þarna hafa lifað ýmsar smáþjóðir sem hafa tekist á um búsvæði og land. Ein þessara þjóða eru hinir fornu hebrear, forfeður þeirra sem síðan eru kallaðir Ísraelsmenn. Um skamma hríð tókst þeim að öðlast yfirráð fyrir nokkuð stóru svæði, en það munu vera tíminn sem kenndur er við konunginn Davíð og son hans Salómon.

Þetta er svæði á milli stórþjóða, svo sem Persa og Assýringa og síðan Egypta í suðri og þetta landsvæði því oft í gegnum aldirnar verið yfirtekið af stærri þjóðum og síðan eins og við þekkjum á tíma Jesú hluti af hinu mikla rómverska heimsveldi. Ísraelsmenn höfðu engu að síður öðlast sterka þjóðarvitund og hún varð eiginlega til í kringum þeirra átrúnað og sannfæringu þess að Þeirra guð Jahve hefði ætlað þeim mikið hlutverk og hann myndi á endanum sjá til þess að þeim tækist að lifa í öryggi í landinu sem hann hafi í upphafi ætlað þeim. Enn þann dag í dag eru fornir textar sem túlka þessa von og sannfæringu notaðir til að réttlæta landtöku og ólýsanlega grimmd og ofbeldi gegn öðrum þjóðum sem þarna hafa lifað saman um þúsundir ára.

Það sem talar til okkar í nútímanum frá þessum fornu orðum er von og trúin á það að þrátt fyrir það að þurfa að þola ofbeldi og yfirgang, vera rekin burt af jörðum sínum og heimilum í þúsundatali og flutt inn i fjarlægt land og horfa upp á helgidóm sinn lagðan í rúst. Þá lifir stöðugt vonin um betri tíð, vonin um að Guð allsherjar hafi ætlað þeim hlutverk og umfram allt að hann hafi ekki gleymt þeim. Þess vegna hafa þessi orð lifað og verið rituð niður aftur og aftur og endurrituð og sett saman á margan hátt efir því sem tímarnir og aðstæðurnar gengu fram.

Jesaja bókin geymir ennfremur marga myndríka texta og fyrirheiti sem ætlaðir eru til að vekja hrjáðu og hröktu fólki von í brjósti. Hann segir fyrir um komu messíasar sem muni frelsa og bjarga og í þessum texta dregur hann upp líkingu af fæðingu, þeirri þraut sem konan má líða við að fæða nýtt líf inn í þennan heim en allt verður það samt fyrir bí nema fyrir náð og kraft Guðs sem mun jafnvel reisa þau á fætur sem fallin eru.

Það er kaldhæðnislegt að hugsa til þess að þessir textar verða að líkindum til í aðstæðum undirokunar og valdbeitingar ekki ólíkum þeim sem palestínska þjóðin hefur mátt nú áratugum saman mátt þola af hendi þeirra sem telja sig afkomendur þessarar hrjáðu og undirokuðu smáþjóðar fortíðarinnar.

En menn vissu þá ekki síður en nú að í neyðinni er mest um vert að missa ekki móðinn, gefast ekki upp heldur halda í von um betri tíð. Sjá fyrir sér betri tíð, sjá fyrir sér frið og öryggi og lífskjör, land sem „flýtur í mjólk og hunangi“.

Þegar trúin á Jesú Krist er að festa rætur og Páll postuli ferðast um og hittir fámenna söfnuði sem lifðu við ótta og ofsóknir þá setur hann sig á vissan hátt í stöðu spámannsins, hann þekti vel hin fornu rit og fyrirheitin sem þar eru borin fram og þann stíl sem þar er notaður. Hann gerir sig að fyrirmynd sem aðrir geti samsamað sig við. Þær þrengingar sem hann hefur mátt þola eru ekki neitt í samanburði við það sem í vændum er líkt og hann áréttar hér: „Mættuð þið því geta skilið það með öllum heilögum hvílík er víddin og lengdin, hæðin og dýptin í kærleika Krists og fá að sannreyna hann, sem gnæfir yfir alla þekkingu, og ná að fyllast allri Guðs fyllingu.“ Niðurstaða hans er því sú að þrátt fyrir alla þá erfiðleika og þjáningar sem mæta okkur nú þá sé það ekkert í samanburði við það sem í vændum sé vegna Jesú Krists.

Þessi von hans og sannfæring nærist af því sem hann heyrði og hafði sjálfur fengið að reyna um Jesú Krist. Frásagnirnar af kraftaverkum hans og miskunnarverkum sem gengu milli manna í þessum söfnuðum sem hann heimsótti og síðan var farið að skrifa niður af þeim sem til þess höfðu þekkingu.

Ein þessara sagna var auðvitað sú sem við höfum í dag sem guðspjall. Frásögnin af því þegar Jesús kemur til borgarinnar Nain. Hann verður þar vitni að miklum sorgaratburði, ungur maður einkasonur móður sinnar sem áður hafði misst mann sinn er látinn. Þorpið allt tekur þátt í sorg móðurinnar og fylgir henni þegar hinn látni er borinn til grafar. Við sjáum þarna dýrmætt tákn samkenndar sem svo oft má sjá í smærri samfélögum þar sem fólkið þekkist og á dagleg samskipti. En þrátt fyrir það þá vitum við að ekkjan tókst ekki einungis á við sorgina yfir missi sonar síns heldur var staða hennar og lífsframfæri í algerri óvissu. Fjölskyldan var velferðarkerfi þess tíma og þau sem af einhverjum ástæðum lentu í þeirri stöðu að eiga ekki bakland í stórfjölskyldunni, þeirra staða var veik og gat hreinlega verið ávísun á að lenda á vonarvöl.

Þarna var því raunveruleg neyð, sorg og örvænting. Og Kristur stígur inn í aðstæðurnar, hann finnur til með konunni. Það sem mestu skiptir að mínu mati er einmitt þetta sem þarna kemur fram, Guð er kominn inn í mannleg kjör. Þetta er kunnuglegur frasi en samt er það einmitt meginatriðið. Guð finnur til með okkur, hann réttir fram sína hjálparhönd óbeðinn og af eigin frumkvæði. „ég segi þér rís þú upp“

Þetta er hinn táknræni boðskapur sem okkur er gefinn, þetta er það sem Kristur Jesús segir við hvern þann einstakling sem misst hefur mátt á göngu sinni í gegnum táradali lífsins, hefur lagst niður og finnur ekki lengur hvatann til þess að halda áfram.

Þarna birtist okkur fyrirmynd þess að láta sig varða um lífkjör og aðstæður bræðra okkar og systra, ekki aðeins þeirra sem lifa í næsta nágrenni heldur hvar sem er á okkar jarðarkringlu.

Við sjáum þarna líka hvatningu til þess að rjúfa þögn um eigin neyð og stíga þannig fyrsta skref í þá átt að finna stuðning og styrk til að rísa upp og finna að nýju fyrri orku og styrk.

Sr. Eiríkur Jóhannsson