Andagift á Hvítasunnu
Prestur Eiríkur Jóhannsson.
Textar:
Pistill: Post 2.1-4 (-11)
Þá er upp var runninn hvítasunnudagur voru allir saman komnir á einum stað. Varð þá skyndilega gnýr af himni, eins og óveður væri að skella á, og fyllti allt húsið þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra. Allir fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.
(Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum. Er þetta hljóð heyrðist kom allur hópurinn saman. Þeim brá mjög við því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu. Menn voru frá sér af undrun og sögðu: „Eru þetta ekki allt Galíleumenn sem hér eru að tala? Hvernig má það vera að við, hvert og eitt, heyrum þá tala okkar eigið móðurmál? Við erum Partar, Medar og Elamítar, við erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu, frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene og við sem hingað erum flutt frá Róm. Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Við heyrum þá tala á tungum okkar um stórmerki Guðs.“)
Guðspjall: Jóh 14.23-31a
Jesús svaraði: „Sá sem elskar mig varðveitir mitt orð og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gera okkur bústað hjá honum. Sá sem elskar mig ekki varðveitir ekki mín orð. Orðið, sem þér heyrið, er ekki mitt heldur föðurins sem sendi mig.
Þetta hef ég talað til yðar meðan ég var hjá yður. En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt og minna yður á allt það sem ég hef sagt yður. Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist. Þér heyrðuð að ég sagði við yður: Ég fer burt og kem til yðar. Ef þér elskuðuð mig yrðuð þér glöð af því að ég fer til föðurins því faðirinn er mér meiri. Nú hef ég sagt yður það áður en það verður svo að þér trúið þegar það gerist. Ég mun ekki framar tala margt við yður því höfðingi heimsins kemur. Í mér á hann ekkert. En heimurinn á að sjá að ég elska föðurinn og geri eins og faðirinn hefur boðið mér.
Prédikun:
Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Það er Hvítasunna í dag, fallegt orð, það ljómar af því líkt og af sólinni sjálfri. Orð sem lýsir birtu, já gleði, vorgleði þetta er tíminn þegar allt er að gerast í náttúrunnar ríki. Og hér á okkar norðlægu slóðum er einmitt birtan við völd svo til allan sólarhringinn.
En orðið sjálft segir kannski ekki mikið um það sem þessi dagur stendur fyrir í hinu trúarlega samhengi. En það er sannarlega ekki lítið. Þetta er þriðja stórhátíð kristinnar trúar. Hátíð heilags anda. En samkvæmt skilgreiningu okkar kirkjudeildar þá birtist okkur Guðdómurinn á þrennan hátt, í föður, syni og heilögum anda eða sem skapari, lausnsari og hjálpari svo einhver önnur lýsandi orð séu notuð. Allt er þetta þó eins konar leyndardómur, viðleitni mannlegrar getu til að túlka og höndla hið stóra hugtak hins eina Guðs.
Við heyrum á þessum degi lesna frásögnina úr Postulasögunni um það sem stundum er kallað úthelling heilags anda. Því er lýst rétt eins og náttúruhamfarir væru í aðsigi. Við sem til dæmis höfum reynslu af jarðskjálftum könnumst við þennan gný sem þeim fylgja.
Þarna er með fátæklegum orðum reynt að lýsa, eiginlega ólýsanlegri lífsreynslu. Skyndilega var eins og allir gætu skilið alla. Þótt þarna væri að finna fólk af fjölmörgu þjóðerni. Tákn um það hvers eðlis þessi atburður var. Kraftur og skilningur eru kannski orð sem að einhverju leyti ná að lýsa því.
Eitt er allavega alveg ljóst að í kjölfar þessa atburðar fór af stað atburðarás sem leiddi til þess að til varð það sem við köllum kristna kirkju.
Textar guðspjalanna segja frá því að á þessum fimmtíu dögum sem liðnir voru frá því að fólkið sá þess skýr merki að Jesús hafi risið upp úr gröf sinni, þá hafi hann birst þeim og verið með þeim mörgum sinnum, hann hafði rætt við þau og meira að segja eitt sinn búið þeim málsverð við strönd Galíleuvatnsins. Loks höfðu nokkrir þeirra horft á eftir honum hverfa upp til himins.
Það er ekkert dregið undan með að fólkið hans sem verið hafði með honum og horft upp á þetta allt það var bæði ráðvillt og stundum óttaslegið. Kannski mætti segja að það vissi varla sitt rjúkandi ráð frammi fyrir öllu þessu sem sannarlega fór á skjön við allt annað sem reynsla manna bæði þá og nú telur raunhæft og mögulegt.
En þarna, á þessum degi, gerðist eitthvað sem varð til þess að til varð skipulag og skýr hugsun um það að hverju skyldi stefna, hvað ætti að gera og hvernig skyldi fram haldið.
Þannig varð sú andagift sem þarna var veitt, að sterkri hreyfingu sem breiddist út um heiminn.
Við þekkjum það vel að eitt er að vita og þekkja og sjá fyrir sér hvað gott er að gera og hvernig best er að lifa heilbrigðu lífi svo dæmi sé tekið. Anna‘ er og þá vex vandinn, þegar til þess kemur að láta áformin verða að veruleika, standa við stóru orðin. Okkur finnst svo oft sem við þurfum að finna réttu stemminguna rétta tímann, til að koma okkur af stað, rétta andann.
Svo við hugsum aftur til textanna sem við heyrðumlesna, þá var það ekki bara þessi andlegi kraftur sem þarna var gefinn mönnum heldur líka á táknrænan hátt skilningur, alltíeinu skyldu allir alla um stund.
Við höfum kannski aldrei séð skírari dæmi um mikilvægi skilnings en einmitt um þessar mundir, mikilvægi þess að átta sig á samhengi hlutanna.
Í þeim flókna heimi sem við lifum í þá gætir þess stöðugt meir að það er eins og fólk flýi undan því að reyna að skilja og setja sig í annarra spor.Því finnst þægilegt að láta draga upp fyrir sig einfaldar myndir, svarthvítar myndir, myndir sem skipta fólki og fyrirbærum og jafnvel fyrirtækjum upp í vonda og góða, vini og óvini. Þessari einföldu mynd er síðan dælt yfir fólk með dágóðum skammti af hræðsluáróðri.
Það er svo sannarlega ekki auðvelt að skilja alla hluti og oft gefst hvorki tími til tóm til að setja sig inn í flókin mál og átta sig á því þar, hvað skiptir máli og hvað ekki. Samt er þetta verkefni okkar í stóru sem smáu. Þetta er það sem er grundvöllur allra góðra samskipta að geta sett sig í annarra spor og leitast þannig við að sjá út fyrir sjálfan sig og sína eigin augnabliks hagsmuni. Það er verkefni okkar allra ungra sem eldri að þjálfa huga okkar til þess að geta metið og yfirvegað það sem að okkur berst af skilaboðum. Til að geta forðast að ánetjast yfirborðsmennsku og innantómum slagorðum. Já til að forðast heimskuna sem svo víða virðist vera að taka völdin. Þrátt fyrir alla þekkingu, vísindi og vitnesku sem tiltæk er í dag þá er heimskan á miklu flugi.
Í guðspjallinu segir Jesús Kristur þessi kunnu og mikilvægu orð um friðinn þann frið sem hann muni eiginlega arfleiða okkur að. Frið sem forði okkur frá því að hjartað skelfist og hræðist og það er hjálparinn andinn heilagi sem gefur okkur þessa rósemd hjartans. Hans vegna eigum við að geta andað rólega, tekið okkur tíma til að yfirvega og greina á milli þess sem skiptir máli og hins sem ekki skiptir máli.
Þetta er það sem er hlutverk okkar kristins fólks og hlutverk kirkjunnar að leitast við að missa ekki sjónar á grundvellinum, láta ekki orðaflaum og moldviðri byrgja sér sýn. Það er alls ekki víst að slíkt sé til vinsælda fallið, reynslan virðist sýna að sá sem hrópar hæst og ber sér á brjóst, nær athygli og jafnvel hylli.
Það er mikilvægt að kirkjan okkar njóti trausts en það þarf ekkiendilega að vera það sama og vera vinsæl, hlutverk hennar er og á ætíð að vera að taka sér stöðu með sannleikanum, réttlætinuog kærleikanum, stöðu við hlið þeirra sem höllum fæti standa. Það er ekki alltaf vinsælt, kirkja ætti alltaf að taka sér varðstöðu gagnvart hinu veraldlega valdi og hafa kjark til að segja óþægilega hluti. Fyrirmynd okkar Jesús Kristur var ekki lengi vinsæll og hann galt fyrir það með lífi sínu að hafa sagt sannleikann óþægilegan sannleika.
Sú andagift sem hvítasunnan stendur fyrir, sá friður og skilningur sem okkur var gefinn og er gefinn ef við viljum við honum taka, segir okkur hvert hlutverk kristins fólks er í heiminum, það hvetur okkur til þess að stíga fram og segja sannleika og leggja okkur fram við að skilja flókin fyrirbæri með kærleika og friðarást að leiðarljósi, hann varar okkur við hvers kyns innantómum hræðsluáróðri eða blindri persónudýrkun.
Við erum kölluð til verka og aldrei hefur verið betur ljóst en nú hve mikilvægt og brýnt hlutverkið er og verkefnið, að standa vörð um grunngildi, það er hvorki einfalt né auðvelt, við þurfum á öllum okkar hæfileikum og náðargáfum að halda, það verða áfram gerð mistök en hjálparinn andinn heilagi hann er með okkur og ekkert getur tekið það frá okkur, með hans hjálp getum við risið upp þótt við hrösum, með hans hjálp getum við fundið skilning og vilja til góðra verka, að finna leið í átt til ljóssins hinnar hvítu sunnu sem táknar hið eilífa bjarta ljós er við okkur skín frá Guði, Guði sem í senn er faðir sonur og heilagur andi.