Páskabréfið 2020

Söfnuður Hallgrímskirkju – kæru vinir. Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn. Það er erindi og frétt páskadags. Föstudagurinn langi er ekki endir hinnar kristnu sögu heldur áfangi. Jesús Kristur reis upp. Dauðinn dó og lífið lifir.

Það er undarlegur tími þegar við getum ekki á páskum sungið saman fagnaðarsöngva í Hallgrímskirkju. En við við höfum ekki tapað sambandi. Guð er okkur nærri, tengir, skilur þrá og nemur vonir okkar. Guð heyrir bænir og andvörp og styrkir til lífs. Hugur okkar er með þeim sem eru sjúk, syrgjandi, líður illa eða einangrast. Umvefjum hvert annað í bæn, söfnuðinn, kirkjuna, samfélag okkar og heim. Og fögnum páskum.

Guð geymi ykkur öll og blessi, Irma Sjöfn og Sigurður Árni.

Guð lífs og vonar

Við mætum þér í hinum upprisna Kristi og fögnum lífinu. Ver með veröldinni sem þú hefur skapað. Blessa kirkju þína og gef að hún verði ávallt farvegur lífs þíns.

Guð skapari

Þú sem kallar okkur til ábyrgðar og þjónustu við náunga okkar og umhverfi.

Vak yfir þeim sem ráða málum okkar, gef vísdóm, heiðarleika og kærleika í störfum þeirra. Leiddu okkur á veg réttlætis, jafnréttis og umburðarlyndis. Auk okkur elsku og virðingu fyrir umhverfi okkar og verðmætum sköpunarverksins.

Guð vonar og framtíðar

Vak yfir börnum þessa heims sem eru framtíð og von veraldarinnar, yfir ófæddum börnum og þeim sem vænta komu þeirra. Ver með systkinum okkar sem búa við ófrið, sjúkleika eða eru á flótta. Við felum þér líf okkar, ástvini, fjölskyldur og allan heiminn sem við gistum. Við fögnum upprisu frelsarans.

Fyrir Jesú Krist Drottinn vorn.

Drottinn heyr vora bæn. Amen.

Meðfylgjandi mynd er tekin af Hallgrímskirkjuvininum og myndlistarmanninum Inga Hrafni Stefánssyni.