Þræðir

Í dagljósri kirkjunni á föstudeginum langa.  Sólinni langar ekki að skína og altari kirkjunnar er svipt sínu fegursta skarti, ljósastjökum og dúkum.  En eins og brynja og skjól er fallegt dimmsvart altarisklæðið sem myndar heild við svartan lit hökuls.  Listafallegur fíngerður útsaumurinn úr hör - og gullþræði.  Útsaumurinn myndar orð og myndir.  Myndirnar sem eru dregnar upp með saumspori eru píslarganga Jesú Krists og fórn pelíkanans sem til að bjarga ungum sínum blóðgar sitt eigið brjóst. Listaverkin eru eftir hina merku kirkjulistakonu Unni Ólafsdóttur.

 Þessi augnablik í sögu Jesú Krists eru fest í saum, augnablik sem mynda uppistöðu í vef trúarsögunnar um þjáninguna, tilgangsleysi ofbeldis, samstöðu með kærleikanum, réttlætinu, sorginni, missinum, þörfinni fyrir von og sátt, tilgang. Þetta eru einnig þræðirnar sem liggja inn og um líf okkar, stundum í hjarta okkar, stundum eins og helsi en oftast lífgefandi, sterkir lífsþræðir.  Þræðir trúar, kærleika og vonar.

Hjartslátturinn á þesum degi er þungur sláttur þjáningar, alvöru.  Ekki bara þjáningu krossins heldur draumum um framtíð og að þjáningin láti undan, kvölin sem steypir veröldinin okkar á hvolf reglulega.  Svo kallar lífmagn kærleikans út úr ógninni.

Klæði og þræðir eiga sér einnig stað og stund í síðustu andartökum  í lífi Jesú Krists.
Klæðum Krists skipta hermennirnir á milli sín.  Í 36. Passíusálmi leggur svo Hallgrímur Pétursson út af skiptunum á klæðum Krists.  Í 5. versi sálmsins fer hann inn að kviku örbirgðarinnar.  Hann á ekkert, móðir hans sömuleiðis, hefur ekki einu sinni fötin sem hann klæddist til að finna lyktina, áferðina, minnast sonarins sem  hún bar í þennan heim.  Þræðirnir eru ótal margir, sorgar, söknuðar og magnvana þrá að geta leyst barnið sitt undan þjáningunni, illsku og óréttlæti.
" Ei lét vor drottinn auðlegð há
eftir í þessum heim,
klæðin sem hann bar holdi á,
en hvorki gull né seim.
Þó mátti ei hans móðir fá
hið minnsta af öllum þeim.
Illir menn hendi yfir þau slá.
Aldrei því dæmi gleym."

Hugsanir og myndir dregnar upp á þessum degi.  Líka barnsminningar um föstudaginn langa, veggurinn fyrir utan húsið hennar ömmu minnar á 7. og 8. áratug síðustu aldar,  steinsteyptur, hallandi veggurinn og stundum næstum hélað veturbarið grasið sem maður reitti upp með höndunum, hvítir sokkabuxnaklæddir spóaleggir sem hengu fram af veggnum.  Það var ekkert um að vera, fannst maður varla mega anda, útvarpið dæsti og spilaði alvarlegan Bach.   En veröldin dró andann og barninu leiddist.

Föstudagurinn langi, svo langur og veröldin dró andann til að minnast og undirbúa þennan stóra brjóstkassa veraldarinnar, sem rúmar hjartað sem slær í takt við lífið og andar frá sér gleði páskanna.
Minnast klæðanna sem urðu eftir í steinhöggvinni gröf og sá sem þjáðist var ekki lengur þar....