SDG

11. júní 2020
Víkingur Heiðar Ólafsson kom inn í himinbjarta Hallgrímskirkju í gær. Skömmu síðar kom hópur flóttamanna í forkirkjuna. Ragnar Kjartansson, myndlistarmaður og sjálfboðaliði, var leiðsögumaður hóps á vegum Rauða krossins. Ragnar hafði farið með þessum karlahóp í óvissuferð um miðbæinn. Þeir vissu ekki að Hallgrímskirkja var einn áfanginn. Við, prestar og kirkjuverðir, vorum búin að tryggja að himinhliðið yrði opið. Karlarnir tóku prestskynningunni vel. Víkingur Heiðar var við flygilinn, kynnti Bach og trúartúlkun hans fyrir hópnum, bað alla um að fella símana og svo spilaði hann þessa dásamlegu Soli Deo Gloria tónlist fyrir okkur. Einn karlinn sagði við mig: „Ég vissi ekkert um þetta fyrirfram, en þetta er merkilegasta upplifunin sem ég hef orðið fyrir á Íslandi.“ Þessi þjónusta tveggja af fremstu listamönnum þjóðarinnar hreif, auðmýkt þeirra og hjartanleg gestrisni. Takk Rauði krossinn, Ragnar Kjartansson og Víkingur Heiðar Ólafsson. Hallgrímskirkja er opið rými, himinrými.

Sigurðurður Árni Þórðarson