Setning Kirkjulistahátíðar 2015 og óratóría Salómons eftir G.F. Händel

12. ágúst 2015
Mikið verður um dýrðir þegar Kirkjulistahátíð 2015 verður sett föstudaginn 14. ágúst kl. 17. Þar mun alþjóðlega barokksveitin í Den Haag leika og Mótettukór Hallgrímskirkju syngur. Opnuð verður myndlistarsýning Helga Þorgils Friðjónssonar, barokkdans verður stiginn og ávörp flytja biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir og dr. Sigurður Árni Þórðarson. Setningin er ókeypis og allir velkomnir.

Um helgina verða órotóría G.F. Händels um Salómon konung frumflutt á Íslandi. Óratórían Salómon er í 3 þáttum og segir frá stjórnartíð Salómons konungs sem þótti bæði vitur og réttlátur. Fjallað er um hinn fræga Salómonsdóm og heimsókn drottningarinnar af Saba. Aðdáendur Händels munu sannarlega ekki verða fyrir vonbrigðum  með þessa óratóríu með tilkomumiklum aríum og kórköflum sem spanna allt litróf tilfinninganna.

Fyrri tónleikarnir verða laugardaginn 15. ágúst kl. 19.00 og þeir síðari sunnudaginn 16. ágúst kl. 16.00. Flytjendur eru Mótettukór Hallgrímskirkju ásamt barokkhljóðfæraleikurum í fremstu röð og hinum heimsþekkta kontratenór Robin Blaze. Aðrir einsöngvarar eru Þóra Einarsdóttir, Sigríður Ósk Kristjánsdóttur, Benedikt Kristjánsson og Oddur Arnþór Jónsson. Stjórnandi: Hörður Áskelsson.

Miðaverð er tvenns konar. Á besta stað 9.900 en 6900 í önnur sæti. Mögulegt er að kaupa miða á Salómonvið inngang, í gegnum síma kirkjunnar eða inn á midi.is.

Miðasala

Vefur Kirkjulistahátíðar