Skaparinn, jörðin og plastið!

25. apríl

Skaparinn, jörðin og plastið.

Gleðilegan dag umhverfisins og sumar!

Það er skemmtilegt að æ fleiri baráttuefni og tilefni eignast sína daga. Frá 1970 varð til “Dagur jarðar”  eða “Earth day”. Hann ber upp á 22. apríl ár hvert. Hér á landi er það Dagur umhverfisins þann 25. apríl og hann ber upp á Sumardaginn fyrsta þetta árið.

Hin kristna kirkja er kirkja jarðarinnar, sköpunarinnar, verndunar og ábyrgðar. Hún á að vera faðmlag um sköpunina, faðmlag sem miðlar von í veröld sem snýst í kring um sjálfa sig oft á tíðum.
Í yl og kærleika þessa faðmlags skulum við aðeins víkja að öðru faðmlagi við sumarupphaf - faðmlagi skaparans og sköpunarinnar í nærveru “Jarðardagsins”.

Við eigum öll okkar staði sem við umföðumum í hjarta okkar og draga fram elsku okkar á sköpunarverkinu, kyrrð fjallanna, erli torganna, garðholunni okkar eða rengúða í grænu grasi Guðs. Ilm af birki eða sól og fulgasöng í lágvöxnu birkikjarri, tært streymandi vatnið á árbakka.

Náttúran eins og hlýtt faðmlag. En kuldann leggur frá matarsóun, plastmengun, gróðureyðingu, fæðuskorti, skorti á hlíf himinsins, drasli og dóti í úthöfum meðan sjórinn hlýnar sér til óbóta og okkur öllum.

Heimurinn, sköpunin er gjöf Guðs en tilgangur þessarar gjafar er að sameina manneskjuna skapara sínum, sameina hana Guði sem hefur gefið gjöfina.

Því hljótum við að gangast við því að hnattræn hlýnun varðar réttlæti því þau fátæku heimsins sem hafa gert minnst til að valda þjást nú vegna eyðandi afleiðinga hnattrænnar hlýnunar. Með því að bregðast við þessu erum við að sýna náunga okkar elsku, náunginn sem býr í öðrum heimsálfum og löndum og kynslóðir framtíðarinnar sömuleiðis. Ganga inn á þeirra braut eins og Kristur gerði.

Leyfum hjartanu í brjósti okkar að slá fyrir lífinu og umhverfinu. Leitum eftir ilmi úr mold og lífi sem kviknar, svo haustinu sem mætir með dvala hinns litríka lífs en fræið sefur og fönnin grandar því ekki..

Við erum í hendi Guðs, bæði í lífi og dauða. Sköpunin gjörvöll – hann sem hefur helgað allt já..”og með réttu lofar þig allt sem þú hefur skapað”…

Gleðilegt sumar!

Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir

 

Hallgrímskirkja – Þinn staður!