Skírdagur

28. mars

Á skírdag er þess minnst að Jesús stóð á fætur, þar sem hann var staddur með sínum lærisveinum til að neyta páskamáltíðar og tók til við að þvo fætur lærisveina sinna. Sem sagt að hreinsa, að skíra. Þannig vildi hann sýna þeim að sá sem mestur teldist hverju sinni hann væri kallaður til að þjóna, ekki til að láta þjóna sér.

Síðan neyttu þeir saman páskamáltíðar sem var siður til að minnast brottfarar þjóðarinnar úr þrældómi öldum fyrr. Þar var í upphafi ferðar, lambi slátrað á hverju heimili, blóð þess fældi frá engil dauðans sem fór um landið og deyddi börn. Í því samhengi sagði Jesús þessi orð “þetta er líkami minn og blóð” því hann vissi að senn yrði honum fórnað og vegna dauða hans ættum við von um líf, eilíft líf.

Að kvöldi skírdags er Getsemanestund í Hallgrímskirkju kl. 20.00

Þá er altarið afklætt og sett fram fyrir altarið altarisklæði sem á sér ekki hliðstæðu hér á landi. Það er látið standa í kirkjunni yfir föstudaginn langa sem myndræn íhugun. Klæðið er svart og ber mynd pelíkanans. Klæðið gerði frú Unnur Ólafsdóttir listakona en eiginmaður hennar, Óli M. Ísaksson, gaf kirkjunni það til minningar um hana. Myndin af pelíkananum er fornt tákn píslanna og friðþægingarinnar. Sagan segir að þegar höggormurinn hafði komist í hreiður pelíkanans og bitið ungana þá særði móðirin sig á brjóstinu og lét blóðdropa falla á unga sína fimm sem þá lifnuðu við. Þetta sáu kristnir menn sem mynd og tákn um það hvernig blóð Krists hreinsar okkur af allri synd og fyrir benjar hans urðum við heilbrigð.