Ástarsagan

24. mars 2020
Á innilokunartíma á föstu 2020 hvarlar hugurinn til Passíusálmanna. Er eitthvað í þeirri sögu sem er mikilvægt og sígilt? Hvernig var saga höfundarins? Við vitum að Hallgrímur var metinn og jafnvel elskaður af formæðrum og forfeðrum okkar. Af hverju? Margt kom til, skáldskapurinn vissulega, en líka maðurinn og ævi hans. Hann var hæfileikastrákur, sem fór þó í hundana. Hann týndist þó ekki alveg bölvandi og ragnandi í Glückstad, heldur reis upp og nýtti alla hæfileika sína.

En það var ekki bara bókmenntaperlan Passíusálmar, sem varð til að kynslóðir Íslendinga elskuðu hann, heldur margþátta ástarsaga Guðríðar Símonardóttur og Hallgríms. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu sem var rænt, herleidd, flekkuð, en varðveitti í sér undur og ást. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var svo settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Og ástin blómstraði.

Þau áttu erfiða daga, en brotnuðu ekki heldur elskuðu. Og líf þeirra bar ávexti. Þau horfðu á börn sín og hugsuðu um hvernig hægt væri að veita þeim gott líf. Þau leituðu og fundu en misstu líka mikið. Þessi mikla ástarsaga varð eiginlega jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma um hvernig dýrlingar verða til, hvernig þeir elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskuðu andlegt heilbrigði þrátt fyrir hræðileg veikindi, og sýndu andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Stór og heillandi ástarsaga. Klassík.

Ástarsaga Guðríðar og Hallgríms er gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma. Þar er sögð saga Guðs. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar, en ekki reiðum guði. Guð, sem kemur, en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð, sem líknar, vinur en ekki óvinur. Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna, eins og vegabréf fyrir himinhlið.

Íslensk menning hefur breyst. Ný viðmið hafa orðið til. Tengsl trosna og gliðna eins og við prestar sjáum oft. Einstaklingarnir eru berskjaldaðri en áður var. Stofnanir hafa riðlast og virðing þeirra hefur minnkað eða veiklast. Fólk leitar ekki lengur að stofnun heldur upplifun, reynslu, því sem kemur til móts við djúpa kærleiksþörf fólks. Á bak við Passíusálma er merkileg ástarsöga um Hallgrím og Guðríði. En á bak við þau og okkur öll er ástarsaga Guðs. Gott íhugunarefni á föstu og innilokunartíð. 

Sigurður Árni Þórðarson

Steinunn Jóhannesdóttir hefur skrifað stórkostlegar bækur um Hallgrím Pétursson og Guðríði Símonardóttur og ástarsögu þeirra - og Guðs. Sjá rit hennar:

  • 2014 Jólin hans Hallgríms

  • 2010 Heimanfylgja. Skáldsaga um uppvöxt Hallgríms Péturssonar, ættfólk hans og samtíð

  • 2001 Reisubók Guðríðar Símonardóttur. Skáldsaga byggð á heimildum