Stefnumót við Guð

14. ágúst 2021
Guðsþjónusta í Hallgrímskirkju kl. 11.00 sunnudaginn 15. ágúst.
Irma Sjöfn Óskarsdóttir þjónar fyrir altari og messuþjónar aðstoða.  Organisti er Björn Steinar Sólbergsson og hópur forsöngvara leiðir söng.

Eftir prédikun syngur kvartettinn sálminn  Í  svörtum himingeimi  eftir þau Arngerði Maríu Árnadóttiu og Davíð Þór Jónsson.
Sálmur sem fjallar um fegurð sköpunarinnar kraftinn og lífríkið, Guðs gjafir,  sem eru á einhvern máta að hverfa okkur úr höndum eða tapast.   Þræðir guðspjalls dagsins eru ótalmargir og meistari lífsins leggur okkur á hjarta m.a. auðmýkt, gildi breytninnar og minna vægi þess að sækjast eftir metorðum.
En til að minna á lofgjörðina, aðgæsluna og þakklætið syngjum við úr sálmabókunum:
3 – Lofið vorn Drottin
11b – Drottinn Guð, þitt dýra nafnið skæra
834 – Leitið hans ríkis
6 – Drottinn, ó, Drottinn vor

Björn Steinar organisti leikur á þessum sunnudegi  Lobe den Herren eftir Johann Gottfried Walthers sem forspil og eftirspilið er umritun eftir Björn Steinar Sólbergsson á Capriccio úr þremur píanóstykkjum eftir Páll Ísólfsson 

..og guðspjall 11. sunnudags eftir þrenningarhátíð er :
 Matt 23.1-12
Þá talaði Jesús til mannfjöldans og lærisveina sinna: „Á stóli Móse sitja fræðimenn og farísear. Því skuluð þér gera og halda allt sem þeir segja yður en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara því þeir breyta ekki sem þeir bjóða. Þeir binda þungar byrðar og leggja mönnum á herðar en sjálfir vilja þeir ekki snerta þær einum fingri. Öll sín verk gera þeir til að sýnast fyrir mönnum, þeir breikka minnisborða sína og stækka skúfana.Ljúft er þeim að skipa hefðarsæti í veislum og æðsta bekk í samkundum, láta heilsa sér á torgum og kallast meistarar af mönnum. En þér skuluð ekki láta kalla yður meistara því einn er yðar meistari og þér öll bræður og systur. Þér skuluð ekki kalla neinn föður yðar á jörðu því einn er faðir yðar, sá sem er á himnum. Þér skuluð ekki heldur láta kalla yður leiðtoga því einn er leiðtogi yðar, Kristur. Sá mesti meðal yðar sé þjónn yðar. Hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða