Sumarheimsóknir í Hallgrímskirkju

29. júní 2023
Fréttir

 

Hallgrímskirkja er mjög fjölsótt af ferðamönnum allt árið um kring og sérstaklega á sumarmánuðunum en hún er einnig fjölsótt af Íslendingum og þeim sem búa á Íslandi. Verkefnastjórinn Kristný Rós Gústafsdóttir sendi boð á leik- og grunnskóla og frístundarheimili og bauð þeim að koma í sumarheimsókn í kirkjuna, fá leiðsögn um kirkjuna og fara að endingu í turninn. Í júnímánuði hafa um 500 börn heimsótt Hallgrímskirkju í skipulagðri heimsókn. Það hafa enn fleiri börn heimsótt kirkjuna því það voru ekki allir hópar sem komu í skipulagða heimsókn. Björn Steinar Sólbergsson organisti hitti alla hópana þegar hann var í húsi. Í einni heimsókninni hljóp stúlka að organistanum og stökk upp í fangið á honum þegar hann var að segja frá orgelinu og fékk óvænt og innilegt faðmlag. Það er alltaf gleði að taka á móti barnahópum og starfsfólkið í Hallgrímskirkju þakkar þessum hópum fyrir komuna.

Alvilda Eyvör Elmarsdóttir kirkjuvörður tók myndirnar.