Sunnudagsmessa á nýju ári - 3. janúar kl. 11

01. janúar 2016


Fyrsta sunnudaginn 3. janúar milli nýárs og þréttanda er messa kl. 11 í Hallgrímskirkju. Sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir prédikar og þjónar fyrir altari. Messuþjónar aðstoða. Félagar úr Mótettukór Hallgrímskirkju syngja. Organisti er Steinar Logi Helgason. Messukaffi eftir messu. Verið hjartanlega velkomin.

Textar:

Lexía: 1Sam 2.1-10
Hanna bað og sagði:
Hjarta mitt fagnar í Drottni.
Horn mitt er upphafið af Drottni.
Ég hlæ að fjandmönnum mínum
því að ég gleðst yfir hjálp þinni.
Enginn er heilagur sem Drottinn,
enginn er til nema þú,
enginn er klettur sem Guð vor.
Hreykið yður ekki í orðum,
sleppið engum stóryrðum af vörum
því að Drottinn er vitur Guð,
hann metur verkin.
Bogi kappanna er brotinn
en örmagna menn gyrðast styrkleika.
Saddir selja sig fyrir brauð
en hungraðir þurfa þess ekki.
Óbyrja elur sjö börn
en barnmörg móðir visnar.
Drottinn deyðir og lífgar,
sendir menn til heljar
og leiðir þá upp þaðan.
Drottinn sviptir menn eigum og auðgar þá,
hann niðurlægir og upphefur.
Hann lyftir hinum auma úr duftinu
og hefur hinn snauða úr skarninu,
leiðir hann til sætis hjá höfðingjum
og skipar honum í öndvegi.
Stoðir jarðar eru eign Drottins,
á þeim reisti hann heiminn.
Hann ver fætur sinna réttlátu
en ranglátir þagna í myrkrinu
því að enginn er máttugur af eigin afli.
Drottinn kremur þá sem rísa gegn honum,
Hinn hæsti sendir þrumur af himni gegn þeim.
Drottinn dæmir alla jörðina.
Hann eflir konung sinn að mætti
og hefur upp horn síns smurða.

Pistill: 1Þess 5.5-10
Þið eruð öll börn ljóssins og börn dagsins. Við heyrum ekki nóttunni til eða myrkrinu. Sofum því ekki eins og aðrir heldur vökum og verum allsgáð. Því að þau sem sofa, sofa um nætur og þau sem drekka sig drukkin, drekka um nætur. En við sem heyrum deginum til skulum vera allsgáð, klædd trú og kærleika sem brynju og voninni um frelsun sem hjálmi. Guð hefur ekki ætlað okkur að verða reiðinni að bráð heldur að öðlast sáluhjálp sakir Drottins vors Jesú Krists. Hann dó fyrir okkur til þess að við mættum lifa með honum, hvort sem við vökum eða sofum.

Guðspjall: Matt 2.16-23
Þá sá Heródes að vitringarnir höfðu gabbað hann og varð afar reiður, sendi menn og lét myrða öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni hennar, tvævetur og yngri en það svaraði þeim tíma er hann hafði komist að hjá vitringunum.
Nú rættist það sem Jeremía spámaður hafði sagt fyrir um:
Rödd heyrist í Rama,
harmakvein, beiskur grátur.
Rakel grætur börnin sín,
hún vill ekki huggast láta,
því að þau eru ekki framar lífs.
Þegar Heródes var dáinn þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi í Egyptalandi og segir: „Rís upp, tak barnið og móður þess og far til Ísraelslands. Nú eru þeir dánir sem sátu um líf barnsins.“ Jósef tók sig upp og fór til Ísraelslands með barnið og móður þess.
En þá er hann heyrði að Arkelás réð ríkjum í Júdeu í stað Heródesar, föður síns, óttaðist hann að fara þangað og hélt til Galíleubyggða eftir bendingu í draumi. Þar settist hann að í borg sem heitir Nasaret en það átti að rætast sem spámennirnir sögðu fyrir um: „Nasarei skal hann kallast.“