Sunnudagsmessa og barnastarf 7. febrúar kl. 11

04. febrúar 2016
Sr. Jón Dalbú Hróbjartsson prédikar og þjónar fyrir altari ásamt messuþjónum. Félagar úr Mótettukór Hallgrímskirkju syngja og organisti er Björn Steinar Sólbergsson. Barnastarfið er í umsjá Ingu Harðardóttur. Samskot dagsins renna til Kristniboðsins. Kaffisopi eftir messu.

Verið velkomin.

 Vers vikunnar:
„Jesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn.“ (Lúk 18.31)

Kollekta:
Vér biðjum þig, Drottinn: Heyr þú í mildi bænir vorar. Leys oss úr viðjum syndanna og varðveit oss gegn öllu illu. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.

Textaröð: A

Lexía: Jes 52.13-15
Sjá, þjónn minn mun giftusamur verða,
hann mun verða mikill og veglegur og hátt upp hafinn.
Eins og marga hryllti við honum,
svo afskræmdur var hann ásýndum
að vart var á honum mannsmynd,
eins mun hann vekja undrun margra þjóða
og konungar munu verða orðlausir frammi fyrir honum
því að þeir munu sjá það sem enginn hefur sagt þeim
og verða þess áskynja sem þeir hafa aldrei heyrt.

Pistill: 1Pét 3.18-22
Kristur dó fyrir syndir í eitt skipti fyrir öll, réttlátur fyrir rangláta, til þess að geta leitt ykkur til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til en lifandi ger í anda. Þannig steig hann niður til andanna í varðhaldi og prédikaði fyrir þeim. Þeir höfðu óhlýðnast fyrrum, á dögum Nóa, þegar Guð sýndi biðlund og beið meðan örkin var í smíðum. Í henni frelsuðust fáeinar – það er átta – sálir í vatni. Þetta er fyrirmyndan skírnarinnar sem nú frelsar ykkur. Hún er ekki hreinsun óhreininda á líkamanum heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists sem steig upp til himna, situr Guði á hægri hönd, og englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.

Guðspjall: Matt 3.13-17
Þá kom Jesús frá Galíleu að Jórdan til Jóhannesar að taka skírn hjá honum. Jóhannes vildi varna honum þess og sagði: „Mér er þörf að skírast af þér og þú kemur til mín!“
Jesús svaraði honum: „Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“ Og Jóhannes lét það eftir honum.
En þegar Jesús hafði verið skírður sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig. Og rödd kom af himnum: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“

 

Bæn dagsins:
Miskunnsami Guð, þú sýndir öllum heimi kærleika þinn og gjörðist hluttakandi í þjáningu heimsins þegar sonur þinn Drottinn Jesús Kristur gaf sjálfan sig til dauða á krossi Við biðjum þig: Opna þú augu okkar að við sjáum leyndardóminn bak við þjáningu hans og dauða. Gef okkur kraft til að fylgja honum í hlýðni og í kærleika í þjónustunni við þau sem hungrar og þyrstir eftir réttlæti og eftir lausn frá böli og þunga í sínu daglega lífi. Fyrir þann sama Son þinn Jesús, bróður okkar og frelsara. Amen.