Svo ótrúlega þakklát að hafa fengið að vera hér í þessu 26 ár.

28. júní

Svo ótrúlega þakklát að hafa fengið að vera hér í 26 ár.

Bænin hefur oft verið kölluð andardráttur trúarinnar.
Bænaþjónusta er þungamiðja í öllu kirkjustarfi hvert sem starfið er. Að njóta fyrirbænar er haldreipi okkar svo margra og því lífslán að eiga fyrirbiðjendur. Í Hallgrímskirkju er slík
þjónusta innt af hendi sjálboðaliða sem stendur vaktina alla mánudaga yfir vetrartímann en nú er komið að krossgötum eftir 18 ára þjónustu. Við tókum Sigrúnu Ásgeirsdóttur tali
og forvitnuðumst um hvað væri henni efst í huga en hún hefur innt þessa þjónustu af hendi allan þennan tíma.

Hvenær byrjaðir þú með bænastundina á mánudögum og hver var aðdragandinn?
Ég byrja kannski á að rifja upp þegar við hjónin fórum að koma hér í kirkjuna. Það eru einmitt 26 ár síðan. Karl Sigurbjörnsson var þá nýorðinn biskup og við vorum að leita að góðum predikurum. Hér voru bestu predikarararnir, auðvitað að frátöldum sr. Karli, t.d. Sigurður Pálsson var hér og seinna Jón Dalbú Hróbjartsson. Þannig að við fórum að sækja hér kirkju. Haustið 2006 bað sr. Jón Dalbú mig svo að annast bæn í hádeginu á mánudögum. Á sama tíma hófst líka messuþjónastarfið hér við kirkjuna sem ég hef tekið þátt í frá byrjun. Hádegisbænin átti að hefjast kl. 12.15 og standa í 15 mínútur þannig að fólk gæti komið við í hádegishléinu. Jón lagði ríkt á við mig að þetta væri fast og mætti ekki falla niður og ég yrði að fá einhvern fyrir mig ef ég kæmist ekki. Mér þótti mjög vænt um að vera beðin og að fá að gera þetta. Svo ég sagði bara „já takk” og það er bara búið að vera alveg dásamlegt. Það er svo gott að biðja. Biðja fyrir kirkjunni og starfsfólkinu.

Í upphafi var ég mjög oft ein. Fólk kom oft við í stutta stund en ég var mjög oft ein fyrstu árin. Það fannst mér bara allt í lagi en Guð var alltaf þar. Það kom líka trúfast fólk sem var með mér heilu veturna og hvarf svo kannski en kom oft aftur. En svo þegar COVID kom féll bænin niður um tíma, fyrst til vors 2020 og síðan frá október til apríl 2020/21. Þegar hún
svo hófst aftur þá fara þær í (nokkrar í kvennfélaginu) að vera svo duglegar að koma í bænina. Hjördís og Hilke, Sesselja og Ágústa líka. Þá byrjaði bænin aftur, fyrst hérna frammi við ljósberann og við sátum þar í hring og þannig komst þetta í gang aftur í mars 2021. En það mátti ekki auglýsa fyrr en allt var opnað aftur í apríl.

Varst þú ekki alltaf inni í kirkjunni frá upphafi?
Jú. Við vorum alltaf þar, nema ef það voru jarðarfarir eða athafnir, þá fórum við niður í kórkjallara.

Það var líka alltaf þriðjudagsbæn í kirkjunni. Var einhver tenging þarna á milli?
Sr. Jón Dalbú, fyrrum sóknarprestur í Hallgrímskirkju, vildi að það væri eitthvað safnaðarstarf í boði á hverjum degi í kirkjunni. Messan á sunnudögum, hádegisbænin á mánudögum, fyrirbænastund á þriðjudögum í kórkjallara, árdegismessa á miðvikudögum, kyrrðarstundin á fimmtudögum og á föstudögum var svo líka til margra ára leikfimi og léttur hádegisverður á eftir fyrir eldri borgara í kórkjallara. Margrét Hróbjartsdóttir tók að sér að sjá um föstudagsstundirnar og einnig sáu Ása Guðjónsdóttir og Sigurður Bjarnason um starfið í nokkur ár. Síðar tók svo Mjöll Þórarinsdóttir við. Með tímanum fækkaði í föstudagshópnum og starfið hætti.

Sigrún hefur einnig verið virk í tengslum við árdegismessurnar á miðvikudögum frá byrjun en þær hófust á öskudag árið 2003. Þeir sr. Kristján Valur Ingólfsson og sr. Jón Dalbú voru upphafsmenn að því starfi. Þegar messurnar hófust vorum við oft bara fimm eða sjö en smátt og smátt fjölgaði og lengi vel vorum við tólf og sá þrettándi var presturinn. En í morgun, miðvikudaginn 19. júní, var ég þakklát fyrir að þá vorum við 20 og erum núorðið oftast fleiri en 20 sem sækjum messuna. Þrátt fyrir að það sé sumar og fólk farið í allar áttir til að njóta þess. Guð gefur vöxinn, svo sannarlega!

Hvernig byggir þú mánudagsstundirnar upp?
Ég bjó þetta til sjálf eiginlega þarna í upphafi en við byrjum á að draga okkur ritningarvers og við lesum þau og svo signum við okkur. Þá les ég stuttan kafla úr Biblíunni. Ég er núna nýbúin að lesa yfir alla Sálmana í Gamla textamentinu og ég sá í bænabókinni minni að ég hafði byrjað á því árið 2017. Það tekur því um sex ár að lesa þá yfir, að vísu með COVID hléi. Svo er fyrirbænin og þá er ég venjulega búin að skrifa eitthvað niður. Kannski etthvað sem er efst á baugi í samfélaginu. Ef orðið hafa slys eða ógnir steðja að. En ég byrja alltaf á að biðja fyrir kirkjunni, starfsfólkinu hér og starfinu hér, sóknarnefndinni, gestum, öllum sjálfboðaliðum og þeim sem eru viðstaddir bænastundina. Svo eru nokkrir fastir liðir, eins og t.d. börn sem von er á. Það er svo yndislegt að biðja fyrir börnunum í samfélaginu, eins og litlu stúlkunum þínum, Sólbjörg.

Þetta er því í raun og veru fyrirbænastund eins og nefnt var í upphafi?
Já, og einstaka sinnum kemur eitthvað bænarefni utan úr bæ en þá hefur fólk hringt og óskað eftir að beðið verði fyrir einhverjum. Svo biðjum við Faðirvorið saman og förum með blessunarorðin. Þetta eru þá eitthvað um 15 mínútur eða svo.

Upphaflega var ákveðið að hafa þetta kl. 12.15 svo að fólk sem kemur í matarhléi sem byrjar kl. 12 hafi tíma til að koma sér hingað, benti sr. Jón Dalbú á. Þetta var allt úthugsað.
Svo var þetta fært til kl. 12 vegna þess að um tíma það voru hérna Krílasálmar í kirkjunni sem byrjuðu hálf eitt og þá var þetta stundum farið að stangast aðeins á og þá var þessu breytt.

Yndislegur tími
Þetta hefur verið alveg yndislegur tími og ég verð náttúrulega bara alveg ómöguleg í haust og skil ekkert í mér að hætta. Ég verð auðvitað áfram í Hallgrímskirkju og á nú eftir að halda eitthvað áfram að mæta líka á mánudögum þó að ég beri ekki lengur ábyrgð á bænastundunum. En mér fannst tímabært að draga mig í hlé enda kem ég úr Mosfellsbæ og umferðin oft erfið og sérstaklega í janúar í ár og í fyrra því að þá var svo kalt úti og umferðin erfið og þá hugsaði ég með mér: „Jæja, nú er kannski kominn tími á að hætta”.

Hefur þú aldrei verið þreytt á þessu eða hugsað þér að hætta áður?
Nei. Einstaka sinnum á haustin þá hugsa ég „Nú er vertíðin að fara að byrja.” En svo líður það bara strax hjá einhvern veginn og svo er svo gott að vera í rútínunni að hafa þetta fastan lið í lífinu.

Hvað finnst þér um framhaldið?
Ég veit það bara satt að segja ekki. Grétar Einarsson kirkjuhaldari nefnir að hann sjái þetta sem leikmannaþjónustu og spurning hvort ekki sé betra að fá, t.d. einhvern lítinn hóp til að taka þetta að sér og skiptast á. Þá gætum við starfsfólkið í kirkjunni jafnvel tekið að okkur eina og eina stund, t.d. einu sinni í mánuði eða þegar á þarf að halda. Sérstaklega þegar það er til svona flott uppsetning og frekar skipulagt prógramm.

Sólbjörg segir að sér finnist fallegt að hafa bænina á mánudögum þar sem það sé svo gott að hafa tækifæri til að koma og vera einmitt fá saman í litlum hópi eftir það sem eru oft stórar messur og viðburðir í kirkjunni á sunnudögum. Þar sem það er yndislegt að fá að hafa á mánudögum einhvers konar hreinsandi stund eftir helgina. Sigrún segist þá einmitt oft þakka fyrir messuna deginum áður í mánudagsbæninni.

Að leiða bænahald þarfnast undirbúnings og aga og svo við notum orð Sigrúnar sjálfrar: “Þetta er ekki bara eins og að fá sér kaffibolla eða hvert annað uppvask. Maður þarf að undirbúa sig andlega. Þetta er og þarf að vera spari.”

Hafa erlendir ferðamenn notfært sér bænastundirnar?
Já, svona í gegnum tíðina. Einstaka sinnum, en því hefur aðeins fækkað. Það var eiginlega meira um það fyrir COVID, þá var meira um það að ferðamenn kæmu og settust hjá okkur en núna kemur það fyrir einstaka sinnum og oftast eru það konur. Bæði írskar og breskar konur og svo kanadískar og bandarískar. Það er bara mjög gefandi og ég var svo heppin að hún sr. María frænka mín gaf mér svona öskju með ritningarstöðum úr Biblíunni á ensku og nokkur heilræði á bakhliðinni. Ég get þá látið þau draga orð líka og þeim finnst vænt um að fá eitthvað á ensku en annars eru allar bænir á íslensku.
Sólbjörg bætir við að fyrir sér sé bænin eins og tónlist, það þurfi ekkert alltaf að skilja öll orðin til þess að geta fundið fyrir bæninni og verið með.

Grétar bætir við í framhaldinu að þá sé líka góð hugmynd að búa til lítið blað fyrir mánudagsbænina þar sem farið væri yfir uppsetningu stundarinnar á ensku svo að þau sem
skilja ekki íslensku geti fylgst með í bæninni.

Mikilvægt fyrir bænastundina að búa til lítinn hóp.
Ef við tölum þá um að hafa bænina áfram á mánudögum, þá væri það góð hugmynd að setja saman lítinn hóp, þó að það þurfi ekki að vera margir svo að fólk geti skipst á að leiða
stundirnar. Og Grétar bætir við að þetta sé einmitt eins og með miðvikudagsmessuna að það sé þessi virka þátttaka safnaðarins sem geri helgihaldið lifandi. Það skiptir svo miklu að söfnuðurinn finni fyrir því hversu mikilvæg þátttaka þeirra er, bæði fyrir einstaklinginn og fyrir hópinn.
Það er líka svo mikilvægt að halda vel utan um hóp sjálfboðaliðanna og leyfa hæfileikum þeirra og gáfum að blómstra. Eins og Sigrún sem er svo hæf og getur gert þetta svo vel þá er svo mikilvægt að þau sem taka við geti haft einhvern til að treysta á og læra af. Og Irma laumar að í lokin... „Það væri því sniðugt, ef Sigrún vill, kannski gefa okkur einn mánudag á þriggja mánaða fresti til dæmis svo að þetta mikilvæga starf leysist ekki bara upp alveg.” Sigrún svarar því játandi „Þið bara látið vita!”

En Sigrún, hvað hafa mánudagsbænastundirnar gert fyrir þig sjálfa og þína trú?
Ég hef bara vaxið svo í trúnni að fá að vera bæði þátttakandi og leiða stundirnar Já, þetta er bara búið að vera alveg dásamlegt. Ég hefði alls ekki viljað hafa verið án þess.
Ég er svo þakklát honum Jóni Dalbú fyrir að hafa beðið mig.

Tólf spora starfið
Þess má geta líka að Sigrún var leiðtogi í 12 spora starfi, „Vina í bata” hér í Hallgrímskirkju ásamt Helgu Hróbjartsdóttur en Helga var hvatamaður að því starfi á Íslandi. Margrét
Eggertsdóttir, vinkona mín, tók svo við keflinu af Helgu og stofnaði Vini í bata. Þetta starf var hér í Hallgrímskirkju um aldamótin, ég man ekki nákvæmlega hvaða ár en það voru tveir eða þrír vetur. Þá sagði Helga Hróbjartsdóttir mér bara að koma með sér í þetta. Hér voru tveir kvennahópar og einn karlahópur og margir mjög virkir í þeim hópi Þarna kynntist ég líka nokkrum konum sem fóru að sækja hér messur upp úr því. Helga sagði alltaf að þetta væri grasrótarstarfið. Það þarf að hlúa að því til þess að það komi vöxtur. Það er alveg stórmerkilegt þetta tólf spora starf í kirkjunni. Alveg dásamlegt verkfæri. Ég öðlaðist sjálf miklu betri skilning á sjálfri mér því að auðvitað fór ég sjálf í gegnum vinnubókina í hópastarfinu með hinum.

Ef þú horfir fram í tímann, hvernig sérðu fyrir þér bænastundirnar í þessari kirkju?
Mér finnst nauðsynlegt að það sé beðið fyrir kirkjunni, prestunum og starfsfólkinu. Þetta er erfitt starf sem þau hafa á hendi. Það blása bara oft miskunnarlausir vindar og sumir vill rífa þetta niður. En hvort sem bænin verður nákvæmlega á þessum degi eða þessum tíma þá verður að finna henni stað.

Ég hef aldrei reynt að fá einhvern með mér í þetta eða þjálfa einhvern til að taka við þessu starfi en það er svolítið skref að venja sig á það að biðja upphátt í hópi en um leið og maður er byrjaður þá er það komið. Við verðum að halda utan um bænina og hún má ekki gleymast. Bænin er þar sem við öll tengjumst og ekki hægt að hugsa sér neitt mikilvægara.

..og í lokin þakkarorð frá Hallgrímskirkju til Sigrúnar.

Sigrún biður fyrir kirkjunni okkar og starfinu. Hún biður fyrir okkur, af því að við biðjum
svo sjaldan fyrir okkur sjálfum í raun og veru og það er svo frábært að heyra, sérstaklega
þegar voru erfiðleikar, þá var það líka borið upp til bænar og beðið fyrir því. Það er þetta
sem skiptir svo miklu máli. Ekki bara að það sé auglýst hérna eitthvað á mánudögum.
Það sem skiptir máli er hvað gerist.

Takk Sigrún og Guð vaki yfir þér um ókominn tíma!

Myndir: SB