Út fyrir endimörk alheimsins

25. janúar 2015
Í dag er síðasti sunnudagur eftir þrettánda. Nú lýkur jólatíð trúartímans – gleðiskeiðinu – og svo hefst brátt níu vikna fastan. Fagnaðartími á enda og föstutími fyrir páska hefst. Það er eins í kirkjuárinu og raunveruleikanum – tími gleði og sorgar faðmast.

Texti dagsins er um reynslu þriggja manna af ótrúlegum viðburði sem þeim var þó bannað að segja frá – fyrr en löngu seinna. Þeir urðu vitni að einhvers konar breytingu? En hvað þýddi sú skekjandi upplifun sem þeir urðu fyrir? Vinir Jesú vissu ekki hvernig þeir ættu að skilja atburðinn og gátu því ekki skýrt hann heldur. Og meistarinn bannaði þeim að tala um reynslu sína. Fólkið sem hitti Jesú velti vöngum yfir hver hann væri og furðureynsla á fjalli jók spurningaflóðið. Var Jesús Kristur kannski ofurhetja?

Ofurhetja og þrá sálardjúpa
Hefur þú einhvern tíma séð ofurhetjukvikmynd? Áttu einhverja DVD-diska með Súperman, Batman eða Spiderman? Talsvert safn er á mínu heimili og í sjónvarpsflakkaranum. Hvað merkja þessar myndir og hvernig eigum við að skýra tilurð þeirra?

Þegar á bjátar í samfélögum fólks þrá menn lausn. Í kreppum vaknar þörf fyrir ofurhetjur. Í menningarefni síðustu áratuga hafa sprottið fram margar ofurhetjur í tímaritum og kvikmyndum. Það er beint samhengi milli kreppu og viðbragða, stríða og andlegrar leitar. Svo var í seinni heimstyrjöldinni og styrjöldum síðustu áratuga. Súperman er ekki alveg nýr – hann er nærri áttræður!

Ímyndunarafl fólks er frjálst og ofurhetjunnar tjá eða túlka þrá að einhverjir leysi vanda fólks og þjóða, einhverjir tryggi öryggi og efli réttinn. Þegar stjórnmálamenn bregðast, fjármálakúnstir takast illa og tæknilausnir reynast fals þarfnast fólk samt lausnar á vandanum. Ofurhetjurnar – held ég – tjá þessar þarfir – eru táknmyndir þeirra.

Það er umhugusunarvert, að draumaverksmiðjurnar í Ameríku hafa framleitt ofurhetjumyndir í sérstaklega stórum skömmtum síðasta áratuginn. Af hverju? Jú, spenna í menningu, stjórnmálum, efnahagsmálum, óreiða í samskiptum þjóða og óljós framtíð gruggar upp í menningu og líka sálarbotnum og tilfinningum fólks. Því megum við gjarnan staldra við og spyrja um hvað hjálpar og hvernig.

Fyrirmyndir og ofurhetjur
Allar kynslóðir leita sér að hetjum. Kraftasæknir hafa alltaf gert sér ímyndir og í öllum menningarsamfélögum og trúarhefðum. Grettir, Gunnar á Hlíðarenda og Jón Páll voru kraftahvatar. En mennskar kvikmyndastjörnur, körfuboltasnillingar, Leo Messi og Ronaldo eru annars eðlis en Súperman. Leikarar og íþróttamenn njóta ekki yfirnáttúrulega krafta þó máttugir séu. Ofurhetjurnar eru ekki venjulegar mennskar verur sem hafa orðið frægar, heldur annarrar gerðar en menn. Í þeim búa ofurmennskir kraftar, sem eru handan þess sem fólk getur vænst í raunheimi. Hvað merkja Ben Ten, Hermione Granger, Catwoman, Harry Potter og fleiri í hinu skrautlega hetjugalleríi sögubóka og kvikmynda?

Foreldrar eru þrábeðin og jafnvel grátbeðin um búninga, Batmanskykkjur, Ninjufötu, Súpermanmerki og Spidermangrímu. Það er beinskeyttur bisniss á bak við þetta allt.

Munur Jesú og ofurhetjunnar
Og þá komum við að fjalli furðunnar, fjalli ummyndunar Jesú. Er einhver munur á ofurhetjunni og Jesú Kristi? Eða er Jesús Kristur kannski ofurhetja? Nei, það er alger munur á Jesú Kristi og ofurhetjum fyrr og síðar.

Fyrsta og mikilvægasta aðgreiningin er, að Jesús var og er raunverulegur maður, sem var til og söguheimildir greina frá. En ofurhetjur hafa aldrei verið til – þær eru tilbúningur.

Í öðru lagi: Jesús lagði ekki áherslu á ofurkrafta sína eða vakti athygli á þeim. Verk hans þjónuðu fólki í raunverulegum aðstæðum og voru ekki unnin á svig við veruleika þess. Við eigum að taka Biblíuna alvarlega en ekki bókstaflega, skilja inntak, en stoppa ekki bara við ásýnd.

Í þriðja lagi er eðli lífs og eðli hins trúarlega. Markmið Jesú var að opna veröld fólks og leyfa því að lifa og skilja líf sitt í stærra samhengi en smáveröld eigin nafla. Hann vildi koma fólki til skynjunar eða skilnings á að Guð væri nærri venjulegu fólki og raunverulegu lífi. Jesús hvatti ekki til heimsflótta, heldur þess að taka þátt í lífinu og njóta þess. Guð vill að við séum samverkamenn hans í því að bæta og fegra heiminn. Við erum ekki kölluð til óra og trúarflótta. Því er trú aldrei tengd ofurhetjum.

Ofurhetjur örva ímyndunarafl og þjóna ævintýraþörf fólks. Og við erum öll börn að við höfum þörf fyrir öryggi, að einhverjir hjálpi okkur þegar við lendum í vanda.

Ofurhetjur eru tákn, tjá djúpsetta þrá, en leysa hana ekki. Jesús, hins vegar, er ekki tákn um þarfir fólks, heldur sýnir hvernig vandinn er leystur og hvað leið er fær. Hann er lausn vandans.
Ofurhetjur koma ekki fyrir í raunveruleikanum, en það gerir Jesús Kristur hins vegar. Veruleiki hans er veruleiki heimsins, fólks – okkar allra.

Ofuhetjurnar tjá óskir dulvitundar, en Jesús er veruleiki lífsins. Hetjurnar eru tákn djúpsins og neyðaróps sálarinnar en Jesús er svar lífsins.

Hetjur hvunndagsins
Þegar sonur minn var fimm ára laumaði hann sér eina nóttina upp í rúm okkar foreldranna. Við vöknuðum þennan morgun við að hann tautaði með sjálfum sér: „Ég vildi að pabbi væri ofurhetja.” Mamma hans, sem er snögg til, svaraði honum að bragði: „Hann er ofurhetja.” Þá hló drengurinn og foreldrar hans síðan með honum og við glaðvöknuðum við hlátrana. Það er skemmtilegt að vakna með hlátrasköllum. Drengurinn skildi hvað mamma hans meinti, náði alveg þessari kúrsleiðréttingu hennar og svaraði brosandi: „Það er alveg rétt, mamma mín.”

Og þar með var búið – með ofurlitlum húmor og sveiflu – að hjálpa honum að setja ofurhetjuna upp á snaga, í samhengi, koma ofurhetjutýpinni fyrir á réttum stað. Pabbar eru auðvitað ekki súperman eða spiderman, en þjóna sínu hlutverki samt í raunheimi myrkfælni, óttaefna, skólanáms, fótbolta, kvikmyndam, glímu við félaga og systkini. Og pabbar eru flestir og oftast mun betri í þeim efnum en nokkrar hetjur í bókum eða á skjánum. En ofurhetjur gegna samt hlutverki að vera sýnileg tákn um þrá og drauma undirmeðvitundar. Jesús gegnir hins vegar öðrum og mikilvægum hlutverkum.

Eitt af mikilvægu lífsverkefnum er að iðka lífsgreindina skarplega, læra eigin hlutverk og hvorki smætta né mikla þau hlutverk, sem maður sjálfur og mismunandi hlutar manns gegna. Allt hefur sinn tíma og hlutverkin eru mörg. Inn í það mál spinnast síðan ævintýri, sjálf, heimili, ástvinir og Guð.

Ummyndun Jesú
Hvað gerum við þá við söguna af ummyndunarfjallinu? Þú þarft ekki að taka söguna bókstaflega, heldur máttu gjarnan taka hana alvarlega. Sagan af ummyndunarfjallinu er n.k. krýningarsaga. Hún á sér bókmenntalegar, pólitískar og trúarbragðafræðilegar hliðstæður í sögum um þegar menn urðu kóngar í hinum forna heimi. Jesús var krýndur og þar með gefið hlutverk. Týpurnar í ummyndunarsögunni eru nokkrar og gegna túlkunarhlutverki og leiðbeina við skilning. Móses er fulltrúi laga, boðorða og upphafs sögu hebrea og gyðinga. Jesús tekur við keflinu af Móse og verður því löggjafi nýs tíma. Svo eru þarna Elía, fulltrúi spádómshefðarinnar, sem tjáir að Guð leiðir fólk og heim áfram. Jesús tekur við því hlutverki líka og er boðberi þess, að Guð muni bæta og lækna.

Lærsveinarnir eru fulltrúar manna á öllum öldum. Ummyndunaratburðurinn felst ekki í að ofurhetja verður til og allur vandi er leystur með einhverju djúpsálarlegu afreki eða ofsalegum sigri á myrkri og vonsku. Ummyndunarfjallið er ekki aðeins tákn um hið einstaka, heldur altæka og venjulega líka.

Ummyndun Jesú og líf okkar
Við erum alltaf á ummyndunarfjallinu – á hverri stund í lífinu, í siðklemmum okkar, í samskiptum okkar við fólk, í vinnunni, í æviverkefninu – að lifa. Við erum raunar alltaf í námunda við þennan Jesú og við getum snúið málinu algerlega við líka: Hann er alltaf hjá okkur – í öllum aðstæðum okkar.

Við höldum áfram alla ævi að vera eins og börn. Við þráum hið góða, óttumst hið versta, upplifum krísur og áföll. Við vonumst líka til á fullorðinsárum og gamals aldri, að ofurhetja taki okkur upp og reddi okkur. En þannig er lífið ekki. Lífið er ekki leið skyndilausna og yfirborðstækni. Ofurhetjurnar tjá djúpsetta þrá í okkur. Guð tekur vissulega eftir þeim tilfinningum en kemur ekki eins og hetja heldur sem barn, vinur, mennsk vera, nágranni og vinnufélagi. Guð kemur í hinu venjulega en síður í hinu ofsalega. Ummyndunarfjall okkar getur verið í hinu sérstaka en þó helst á heimilum okkar, í vinnu og í samskiptum við ástvini okkar og venjulegt fólk. Í því samhengi kemur Jesús ekki með látum, heldur í rauntengslum. Ummyndunarsagan er um að Guð er með fólki á lálendi lífsins, í lautum reynslunnar og á hátindum upplifunnar. Guð er alls staðar þegar menn vilja leyfa hinu guðlega að lifa. Þá verður lífið mennskt og þar með guðlegt.

Ummyndunarsagan er um krýningu og það er merkilegt mál að Guð tjáir mönnum hvers eðlis veröldin er. En það verður enginn krýndur í þínu lífi, nema þú viljir. Þig dreymir ofurhetjur – en hver er hjá þér þegar þú vaknar? Er það ofurhetjan. Nei, það er Guð einn sem er hjá þér – í hversdagsleikanum, í kreppum, en líka á hátíðum – alltaf þegar þú þarft á að halda. Guð einn. Amen.

Hallgrímskirkja, 25. janúar, 2015. Síðasti sunnudagur eftir þrenningarhátíð.

Áhrifasaga Jesú og ofurhetjurnar – mín túlkun: Ég tel að skoða megi alla ofuhetjuhefð í menningu Vesturlanda sem áhrifasögu Jesú. Margt af einkennum og djúpþáttum ofurhetjuhefðarinnar og ofurhetjanna má rekja til Jesúsögunnar. En mér virðist ekki vera hægt að skýra Jesú út frá ofurhetjum heldur aðeins öfugt.