Útgáfa sögu Hallgrímskirkju á 75 ára afmæli safnaðarins

22. október 2015


Í tilefni af 75 ára afmæli Hallgrímssafnaðar í Reykjavík hefur Hallgrímskirkja gefið út sögu safnaðarins. Dr. Sigurður Pálsson fyrrum sóknarprestur í Hallgrímskirkju ritaði söguna sem ber yfirskriftina Mínum Drottni til þakklætis, Saga Hallgrímskirkju. Bókin er 232 bls. og ríkulega myndskreytt.  Sunnudaginn 25. október verður  útgáfunni fagnað strax að lokinni hátíðarmessu kl. 11.00

Hallgrímskirkja er eitt helsta kennileiti Reykjavíkur og þekkt sem ein af tíu fegurstu og sérstæðustu byggingum í okkar heimshluta. Hallgrímssöfnuður, sem stofnaður var í bíósal Austurbæjarskóla árið 1940, fékk það hlutverk í veganesti frá Alþingi sama ár að byggja “stóra kirkju á Skólavörðuholti hið fyrsta”. Í bókinni er rakin fjörutíu og eins árs saga byggingar Hallgrímskirkju.

Höfundur gerir stofnun safnaðarins og frumkvöðlum hans góð skil og setur byggingu kirkjunnar í samhengi við þróun og stöðu mála í höfuðborginni. Þá er lögð alúð við að lýsa rómuðu helgihaldi, þróttmiklu safnaðarstarfi og einstöku listastarfi í kirkjunni.

Þetta er frásögn af samstöðu og stórhug, mótlæti og sigrum í litríkri sögu safnaðarstarfs og framkvæmda við Hallgrímskirkju.

Dr. Sigurður Pálsson er höfundur bókartexta en hann var sóknarprestur í Hallgrímskirkju um tíu ára skeið. Aðalheiður Valgeirsdóttir myndlistarmaður og listfræðingur sá um öflun myndefnis og hafði umsjón með útgáfunni og Emil Hannes Valgeirsson grafískur hönnuður sá um hönnun og umbrot.