Útgáfutónleikar Schola cantorum

Áhrifarík og íðilfögur kórverk er að finna á glænýrri plötu Schola cantorum, Meditatio, sem kemur út hjá BIS miðvikudaginn 10. ágúst. Verkin eru öll frá 20. og 21. öldinni og tjá sára sorg og söknuð ástvinamissis en fela jafnframt í sér þá kraftmikla von og huggun sem tónlistin getur veitt. Kórinn fagnar útgáfu plötunnar með tónleikum í Hallgrímskirkju á þessum alþjóðlega útgáfudegi plötunnar  á morgun klukkan 12. Sungin verða verk af Meditatio og boðið upp á kaffi á eftir.

Meðal verkanna á plötunni má nefna  hið ójarðneska Lux aurumque eftir Eric Whitacre, Heyr þú oss himnum á eftir Önnu Þorvaldsdóttur, áhrifamikið í einfaldleika sínum en einnig hið tregafulla og ljúfa Requiem eftir Jón Leifs og að sjálfsögðu Heyr himna smiður eftir Þorkel Sigurbjörnsson, sálminn sem margir telja þann fegursta sem saminn hefur verið hér á landi.  Útkoma Meditatio hjá hinu virta, sænska útgáfufyriræki BIS tryggir alþjóðlega dreifingu plötunnar. www.eclassical.com Hægt verður að festa kaup á plötunni á staðnum.

Schola cantorum

Schola cantorum, sem í ár fagnar 20 ára afmæli sínu, hefur frá upphafi hlotið mikla athygli fyrir fágaðan og tæran söng sinn. Kórinn hefur unnið til verðlauna í erlendum keppnum og komið fram á tónleikum í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Ítalíu, Spáni, Þýskalandi, Frakklandi, Japan og Sviss. Hann var útnefndur Tónlistarhópur Reykjavíkurborgar 2006, tilnefndur til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2007 og Íslensku tónlistarverðlaunanna 2013. Kórinn hefur frá upphafi leikið mikilvægt hlutverk í íslensku tónlistarlífi og frumflutt verk eftir fjölda íslenskra tónskálda auk þess að flytja tónlist allra stíltímabila með og án hljóðfæraundirleiks, m.a. í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Alþjóðlegu barokksveitina í Den Haag, Björk, Sigurrós o.fl.

Kórinn hefur þegið boð um að koma fram á 5 tónleikum á Green Umbrella tónlistarhátíðinni í Los Angeles í apríl 2017 en af öðrum stórum verkefnum framundan er flutningur á Sálumessu eftir Sigurð Sævarsson (frumflutningur) og Requiem eftir A. Schnittke í nóvember nk. og Jólaóratórían eftir J.S. Bach 29. og 30. des nk. ásamt Alþjóðlegu barokksveitinni í Haag og einsöngvurum úr röðum kórsins.  Stjórnandi kórsins frá upphafi er Hörður Áskelsson.

Tónleikastjóri: Sigríður Ásta Árnadóttir  siggasta@internet.is  698 6774

Listrænn stjórnandi: Hörður Áskelsson  hask@hallgrimskirkja.is  693 6690

Framkvæmdastjóri: Inga Rós Ingólfsdóttir ingaros@hallgrimskirkja.is  696 2849

Efnisskrá tónleikanna:

  1. Anna Þorvaldsdóttir: Heyr þú oss himnum á

  2. Sigurður Sævarsson: Nunc dimittis

  3. Eric Esenwalds: O salutaris hostia

  4. Morten Lauridsen: O nata lux

  5. Eric Whitacre: Lux aurumque

  6. Hreiðar Ingi: Nunc dimittis