Tómas Guðni hefur leikinn á íslensku orgelsumri

02. júlí 2021


Orgelsumar í Hallgrímskirkju verður haldið hátíðlegt frá 3. júlí til 22. ágúst í sumar. Átta íslenskir organistar sem starfa við kirkjur víða um land leyfa Klais-orgeli Hallgrímskirkju að hljóma á hádegistónleikum frá 3. júlí til 14. ágúst. Orgelið hefur skipað stóran sess í tónleika- og helgihaldi kirkjunnar allt frá vígslu þess á aðventu 1992. Á Menningarnótt verður orgelmaraþon fjölmargra organista í kirkjunni en orgelsumrinu lýkur svo með lokatónleikum sunnudaginn 22. ágúst klukkan 17:00


Tómas Guðni Eggertsson hefur tónleikaröðina þann 3. júlí klukkan 12:00.


Efnisskrá:

1. J.S.Bach: Pièce d’orgue BWV 572
2. J.S Bach: O Mensch, bewein' dein' Sünde groß BWV 622
3. César Franck: Kórall nr. 3 í a-moll

Miðasala er hafin á tix.is en einnig má fá miða við innganginn á tónleikadegi.

Tómas Guðni Eggertsson (f. 1974) lauk prófi í píanóleik frá Nýja tónlistarskólanum vorið 1996. Hann hélt til framhaldsnáms við Royal Scottish Academy of Music and Drama í Glasgow, lauk þaðan BA-prófi 1999 og Postgraduate-námi ári síðar. Hann lauk einleiksáfanga í orgelleik frá Tónskóla þjóðkirkjunnar 2007 og kantorsprófi í kjölfarið. Aðalkennari hans þar var Björn Steinar Sólbergsson. Tómas Guðni er nú tónlistarstjóri og organisti Seljakirkju. Hann hefur fengið að starfa með ólíkum tónlistarmönnum á borð við Dimitri Ashkenazy, Ólaf Kjartan Sigurðarson, Davíð Þór Jónsson og Pétur Valgarð Pétursson, og var nú síðast meðleikari Sveins Dúu Hjörleifssonar við flutning Malarastúlkunnar fögru í Tjarnarbíói, sem hlaut tilnefningu til Grímu og Íslensku tónlistarverðlaunanna.


Miðasala er á tix.is, í verslun Hallgrímskirkju og við innganginn á tónleikadegi. Aðgangseyrir er kr. 2.000


Verið hjartanlega velkomin!