Unga fólkið í aðalhlutverki

23. september 2018
Barna- og fjölskyldumessurnar eru einstaklega lifandi og skemmtilegar í kirkjunni hjá okkur. Í morgun var ein slíkra stunda þar sem fólk á öllum aldri sameinaðist í söng, bæn og skemmtilegheitum undir stjórn Ingu Harðardóttur æskulýðsfulltrúa og sr. Irmu Sjöfn Óskarsdóttur.

Unga fólkið raðaði sér á mottur fremst í kirkjunni í upphafi athafnarinnar og tók virkan þátt í messunni, enda sungin sunnudagaskólalög sem flestir þekkja.

Barna- og unglingakór Hallgrímskirkju söng hástöfum og leiddi sönginn í kirkjunni undir stjórn Helgu Vilborgar Sigurjónsdóttur kórstjóra og Elísabet Þórðardóttir lék undir ýmist á píanó eða orgel.

Þar sem þema dagsins var uppskeran þá var einboðið að kirkjugestir nytu grænmetis og ávaxta í messukaffinu í Suðursal að lokinni messu.