Upp, upp mín sál og Sigurðarafrekið

Sigurður Skúlason, 15. apríl 2022. Í baksýn sést hökull Unnar Ólafsdóttur. SÁÞ
Sigurður Skúlason, 15. apríl 2022. Í baksýn sést hökull Unnar Ólafsdóttur. SÁÞ

Sigurður Skúlason las Passíusálma Hallgríms Péturssonar í tólfta en síðasta sinn opinberlega föstudaginn langa 2022. Lestur Sigurðar í Hallgrímskirkju var hrífandi, skýr, flæðandi, látlaus, efnislega merkingartúlkandi og persónulegur. Það fór ekki fram hjá neinum að Sigurður las og túlkaði með innlifun og skilningi. Hann virti átök Hallgríms við söguefni píslarsögunnar, innlifaðist tengslagetu skáldsins við ástvininn Jesú Krist og túlkaði djúpglímu manneskjunnar Hallgríms við Guð, menn, mál og líf. Það er klassíkin í Passíusálmunum, ástardjúpið.

Sigurður hefur í áratugi skoðað texta sálmanna, frávik og skoðanir fræðimanna og síðan valið þá útgáfu einstakra versa sem honum hefur þótt upprunalegust. Lesarinn hefur því mótaða skoðun efnisrökum sálma og áherslum höfundarins. Undirbúningur í marga áratugi skilaði að þessi hinsti lestur Sigurðar var svo áhrifaríkur. Flutningurinn var raunar stórviðburður í sögu opinbers Passíusálmalesturs á Íslandi.

Þegar allir sálmarnir eru fluttir á einum degi, eins og víða er gert á föstudeginum langa, eru oftast margir sem lesa. Flutningur sálmanna tekur tæplega fimm klukkutíma í órofnum flutningi. Oftast er lestur brotinn upp með tónlistarflutningi til að gefa lesara eða lesurum færi á skiptum eða hvíld og til að veita andrúm til íhugunar. Svo hefur verið gert í Hallgrímskirkju einnig. Í þetta sinn léku Björn Steinar Sólbergsson og Steinar Logi Helgason á orgel kirkjunnar. En Sigurður Skúlason las alla sálmana einn og tók sér engin hlé önnur en tónlistarhlé. Lestur Sigurðar var ekki aðeins líkamlegt afrek heldur einnig túlkunarafrek.

Liðlega eitt þúsund manns komu í Hallgrímskirkju og hlýddu á lestur Sigurðar. Allir sem vildu gátu fengið textann í hendur og fylgst með. Flestir sátu og hlustuðu á einn til þrjá sálma. Aðrir sátu lengur og nutu undursins og djúptúlkunar Sigurðar og sum allt til enda.

Georg Magnússon tók upp þennan lokalestur Sigurðar og orgelleikinn einnig. Ekki hefur verið ákveðið hvað gert verður við upptökuna en möguleikarnir eru ýmsir: Flytja í útvarpi, setja á vefinn, gefa út disk eða geyma sem dýrgrip til óskilgreindrar framtíðar.

Eftir að lestri lauk komu Einar Árnason og Kristín Ólafsdóttir frá Stöð 2 til að taka viðtal við Sigurð um lesturinn og afstöðu hans. Hann var ekki að niðurlotum komin heldur brattur og íhugull. Einu sólargeislar þessa langa föstudags brutust fram þegar viðtalið í beinni hófst. Fagurt teikn af himni. Hægt er að nálgast viðtalið og grein að baki þessari slóð:

https://www.visir.is/g/20222248988d/-baedi-lettir-og-um-leid-sma-vidskilnadarkvidi-

Takk Sigurður Skúlason og öll önnur sem gerðu þennan föstudag svo inntaksríkan og eftirminnilegan. SÁÞ

Dýrð, vald, virðing og vegsemd hæst,

viska, makt, speki og lofgjörð stærst

sé þér, ó, Jesús, Herra hár,

og heiður klár.

Amen, amen um eilíf ár.