Vatnið og tuttugasta og þyrsta öldin

16. september 2020
Framsaga SÁÞ í Hallgrímskirkju 15. september, 2020. Hljóðskrá er að baki þessari smellu.



Af hverju að tala um vatn í kirkju? Hefur vatn eitthvað með trú að gera? Af hverju ætti prestur að tala um vatn? Eigum við ekki að láta stjórnmála- og vísindamennina ákveða nýtingu vatns? Jú, þeir eiga að koma að málum. En vatnsnotkun varðar okkur öll. Trú tengist alltaf stóru málum lífsins. Í kristinni siðfræði eru mál skoðuð skipulega og ígrunduð stefna mótuð á forsendum ábyrgðar og kærleika. Vatn í veröldinni er trúmál og varðar þorsta lífvera heimsins – og þar með þorsta Jesú sem alltaf er líftengdur.

Þegar við skoðum barnalíkan af jarðarkúlunni getum við snúið hnettinum, skoðað löndin og staði. Við sjáum að megnið af yfirborðinu er ekki með moldarlit, grænt eða sandlitað heldur blátt. 71% af yfirborði jarðar er vatn. Jörðin er ekki brún heldur blá, hún er vatnshnöttur.

Kirkjur eru líka vettvangur vatns. Vatn er í skírnarfontinum, blessað vatnið. Vatn í víni og brauði. Sakramentin eru eru bæði vatnssósa. Og svo eru ókjör af vatni í fólkinu sem sækir kirkjuna - tveir þriðju-hlutar vatn. Það er því mikið af vatni sem fer um þetta hús, líklega nærri 50 milljón líkamslítrar í meðalári auk alls drykkjarvatnsins og hitaveituvatnsins.

Blái hnötturinn lifir en hvað um framtíð hans? Hvað verður um þessa veröld, samhengi okkar? Hvernig geta kynslóðir lifað í framtíð? Margir eru uppteknir af fortíðinni – en ég er meira með huga við framtíðina. Þegar móðir mín var á tíræðisaldri leiftruðu augu hennar þegar hún talaði um vatn, um kál, um fjöll, um hreinleika og um hve lífið væri heilagt. Lífið er mér líka heilagt, vatnið og allt sem er. Ég lít á það sem skyldu mína að leggja lífinu lið, leggja mitt af mörkum til að lífið haldi áfram. Þessar þriðjudagssamverur eru hluti þeirrar einurðar.

Á þessum næstu þriðjudögum verður fjallað um vatn í lífríki heimsins, hvernig vatn sprettur fram í trúarbrögðum, einkum kristninni. Á þessum fyrsta þriðjudegi geri ég grein fyrir forsendum mínum, vatnsbúskap þínum og veraldar. Og ég ræði í lokin um sjötta markmið Sameinuðu þjóðanna sem varðar vatn.

Eftir viku mun ég tala um bleytuna í Biblíunni og mun einkum um ána Jórdan, sem ekki aðeins á sér stórmerkilega sögu heldur áfram að vera tilefni átaka og stríða þjóðanna í Miðausturlöndum vegna vatnsskorts á svæðinu.

Í þriðja lestrinum eftir hálfan mánuð tala ég um vatn og konur og merkilegan fund upphafsmanns kristninnar og útlenskrar konu við brunn í norðurhluta Palestínu. Sá fundur opnar margar gáttir þegar fordómum sleppir, fleiri möguleika en mig hafði órað fyrir. Þessi frásaga er klassík fyrir vatnsstressaðan heim í vatnsvanda.

Síðasti lesturinn, 6. október fjallar um hverjir eigi vatn veraldar. Eiga landeigendur vatn eða er vatn utan eignarhalds, lífsréttindi? Fjallað verður um vatnsrétt Rómverja, ríparískan rétt vestrænna þjóða, löggjöf og venjur tengdar vatni. Þingvellir eru gott nálgunardæmi um hver eigi vatn.

Í þessum lestrum í fjóra þriðjudaga verður rætt um vatn, hlutverk og skyldur þjóðkirkjunnar, kirkna heimsins og trúarbragða. Ég mun líka víkja að möguleikum og skyldum þjóðríkis okkar Íslendinga. Ýmsar tillögur verða fluttar.

Vatnsáhuginn – af hverju

Þá er það persónuvíddin. Af hverju hefur þú svona mikinn áhuga á vatni? Vinir mínir hafa stundum spurt mig þeirrar spurningar. Mér hefur alltaf þótt vatn heillandi, hreyfingin, speglun vatns, gegnsæi, hringrás vatnsins. Þegar ég var strákur í Vesturbænum fékk ég gefins dekkjaslöngur hjá körlunum á Landleiðum þar sem nú eru stúdentagarðarnir. Ég blés þær upp og batt saman og bjó til fley sem ég síðan sat á og fór út á Skerjafjörðinn við Þormóðsstaðafjöruna til að rannsaka lífríkið, fiska og furður sjávarins. Foreldrar mínir voru ekkert að skipta sér af þessu fyrr en systir mín fór á flekann, datt í sjóinn og kom holdvot og köld heim. Þá var þetta hafrannsóknarskip mitt tekið úr umferð.

Í sveitinni gekk ég með bæjarlæknum til að skoða vatnsmagnið, hvernig hann nagaði bakkana, laumaði sér milli steina og kom svo hlægjandi fram mót sólu. Ég var heillaður af vorflóðum, hvernig snjórinn lyppaðist niður í hláku og bunurnar skoppuðu niður brekkurnar og föðmuðu aðrar og af varð mikill vatnadans og vatnsmúsík líka. Mér fannst heillandi að fylgjast með hvernig Svarfaðardalsá varð stórfljót í vorleysingum og allt undirlendi hins mikla dals fór undir vatn. Stíflumannvirki bændanna voru hrífandi, þessi sem höfðu verið byggð til að geta veitt vatni yfir engi og þar með næringu. Þegar ég var tíu ára vakti frændi minn mig snemma og sagði mér að nú ætti ég að drífa mig í fötin því værum að fara að veiða. Hann kunni tökin, kenndi mér að kasta og sjaldan hefur straumurinn orðið jafnsterkur í taugum mínum þegar stór bleikja kippti í og ég missti næstum stöngina í hylinn. Ég varð síðan ástríðu-veiðimaður. Hvergi leið mér betur en við straumvatn. Það laðaði, heillaði og snart einhver djúp hið innra. Milli mín og vatnsins urðu tengsl. Ég gekkst við vatninu. Á menntaskólaárunum ákvað ég að ég ætlaði að læra líffræði og sérhæfa mig í vatnalíffræði. En eftir lífsháska og veikindi þegar ég var 19 ára sneri ég við blaðinu. Í stað þess að læra um vatnið veraldar fór ég í guðfræðinám og lærði um vatn lífsins. En meðan blóðið hefur runnið um hjarta mér hefur vatnið farið þar um. Alla tíð hef ég heillast af vatni, hugsað um vatn, dáðst að því, fundið til þess og leyft því að vera inntak, umhverfi, áhugaefni og dýrmæti. Vatnið hefur aldrei farið úr huga mér en ég hef notið þess í öðrum skilningi en kannski hefði orðið í líffræði. Ég hef skírt fjölda barna. Ég hef útdeilt víni í altarisgöngum og í sakramentunum er mikið vatn. Ég hef reynt að túlka hið lifandi vatn himins á jörðu í ræðu minni og starfi. Ég er af vatni, þjóna vatni, nýt vatns og leyft vatni að heilla mig og næra. Kominn af vatni og mun verða að vatni – og síðan upp af vatni rísa. Það er líka merking þess að vera kominn af jörðu.

Vatnið í okkur

Og þá að þér og vatnsbúskap þínum. Hvað var í kringum þig, var þitt nærsamhengi, þegar þú varst fóstur í móðurkviði? Það var vatn. Þú svamlaðir og fórst kollhnísa í legvökva. Hátíðnihljóðin, sem bárust eyrum þínum alla daga, voru frá hinu hraða rennsli blóðsins, vökvans, í æðum móður þinnar og í takti við slátt hjartans sem dældi. Svo þegar legvatnið fór var ekki lengur hægt að lifa inn í mömmunni - þá fæddist þú. Þegar þú varst kominn í heiminn varstu þrifin(n) í vatni. Síðan varstu baðaður eða lauguð í vatni. Móðurmjólkin var að mestu vatn. Þú varst og ert vatnssósa. Svo héldu elskuarmar á mörgum okkar við skírnarlaug. Glitrandi vatnið í fontinum eða skálinni var borið að kollinum þínum og orðin um föður, son og heilagan anda voru nefnd með nafninu þínu.

Síðan hefur vatnssagan haldið áfram. Þú hefur verið í vatni og notið vatns. Í þér er mikið vatn. Og það vatn er ekki nýtt heldur gamalt. Það hefur lengi verið til, jafnvel tugi milljóna ára. Það hefur farið um líkama fiska, sóleyja, hvala, trjáa, tígrisdýra, apa, snigla, kaktusa og jafnvel risaeðla. Þegar barn fæðist er nýr einstklingur orðinn til en vatnið í nýburanum er gamall arfur milljóna ára. Vatnið í þér og hinu nýja lífi hefur borist um allan heim, verið í Jórdan og mörgum jökulám, verið í Kyrrahafinu, Dauðahafinu, Rauðahafinu og Þingvallavatni. Það er vatn í kirtlum þínum, munni, augum og líffærum. Meðan þú lifir finnur þú fyrir vatnsbúskap líkama þíns. Við megum gjarnan greina samhengið. Eldgamalt vatn og fyrir alla framtíð. Vatnið er lífinu nauðsynlegt. Líf okkar slokknar ef vatnið hverfur eða fúlnar. Okkar er að helga það og vernda.

Vatnið – eðli, hlutverk og flæði.

Þegar við fæðumst erum við að þremur fjórðu hlutum vatn – og við erum blaut það sem eftir lifir æfinnar.

Samtals er vatn Jarðarinnar nærri 1,4 milljarðar km3, í sjó, neðanjarðar, í öllu rennandi vatni heimsins, ís og jöklum og andrúmslofti. Vatnskerfi Jarðarinnar minnkar hvorki né stækkar því andrúmsloftið hindrar að vatn flæði út í geiminn. Um 97% vatns á jarðarkúlunni er salt, einkum í sjónum. Ferskvatn er aðeins tæplega 3% af vatni, um 35 milljón km3. Megnið af ferskvatni er annað hvort neðanjarðar eða frosið. Innan við 1% vatns jarðarinnar myndar hringrás vatns, um 11 milljón km3 eða nærri 0,77% vatns. Það er því fyrst og fremst rigning og snjókoma, sem endurnýja og hreinsa vatnsbirgðir jarðarkúlunnar og til nota fyrir líf á landi. Það er lítið, aðeins 34 þúsund rúmkílómetrar sem nýtast landlífi sem endurnýjanlegar birgðir vatns.

Grunnvatn

Megnið af ferskvatnsbirgðum heimsins er grunnvatn, sem er um sextíu sinnum meira en yfirborðsvatn. Og víða er gróflega dælt úr grunnvatni og því gengið á vatnsbirgðir heimsins. Það er ekki einkamál heldur varðar alla og framtíð líka.

Vernd vatns

Vatnsvernd er æ brýnna mál alls mannkyns. Mengun er víða gífurleg, sjór og vötn eru svo illa spillt að fólk getur ekki farið út í vatnið til að baða sig, hvað þá lotið niður og drukkið. Tveir milljarður manna hafa ekki aðgang að nægu og hreinu vatni. Ýmsum tegundum platna, skordýra og dýra er ógnað vegna vatnsmengunar, uppistöðulóna og námavinnslu.

Íslendingar búa yfirleitt ekki við vatnsskort en hins vegar getur komið fyrir, vegna sérstakra aðstæðna eða áfalla, að vatn spillist eins og á Ísafirði árið 2017 og í Gvendarbrunnum 2017 og 2018. En vansskortur er verulegur og ógnvænlegur víða um heim. Þegar hver einstaklingur fær til nota minna en eitt þúsund rúmmetra á ári er um vatnsskort að ræða. Með loftslagsbreytingum hefur ástand vatnsmála heimsins versnað. Sjúkdómar hafa breiðst út og barnadauði hefur aukist. Fráveitumál eru víða í ólestri og menga vatnsból, ár og læki um víða veröld.

Aðgerðir og 6. heimsmarkmiðið

Gríðarleg streita verður þar sem vatnsskortur ríkir. Frekar en að deyja berst fólk fyrir aðgangi að vatni. Á tuttugustu öld ríkti vatnsspenna í Miðausturlöndum nær og skýra má stríð á átök aldarinnar í því samhengi. Í norður-austur-hluta Afríku ríkir t.d. spenna vegna aðgengis að vatni. Eþíópía gæti orðið fyrir hernaði grannþjóða vegna vatnsnotkunar og vatnstöku úr ánni Níl til raforkuframleiðslu. Í Suður-Ameríku eru víða átök um vatn og m.a.s. í Bandaríkjunum er yfirvofandi vatnsskortur. Æ fleiri hafa gert sér grein fyrir að við erum ekki tuttugasta og fyrsta öldin heldur tuttugasta og þyrsta öldin. Við erum hinum megin við vatnaskil menningar og vatnsnotkunar. Nú verðum við að sameinast fremur en berjast um vatn. Fjórðungur mannkyns býr við vatnsskort eða vatnsstreitu og ófullnægjandi salernisaðstæður. Fjöldi þess fólks sem býr við slíka kreppu fer vaxandi. Aðstæður fólks eru ekki aðeins óviðunandi heldur vex sá fjöldi sem deyr vegna vandans og hætta á að heimurinn fari á hliðina þegar vaxandi flaumur fólks streymir frá þessum dauðakreppum til blautari og lífvænlegri aðstæðna. Flóttamenn í Grikklandi verða barnaleikur hjá því sem orðið getur. Covid-19 eins og barnaþula miðað við þær hremmingar sem raunsæir óttast.

Því settu Sameinuðu þjóðirnar meðferð vatns inn sem aðalatriði í markmiðum Sameinuðu þjóðanna árið 2015. Ábyrg meðferð vatns er sjötta markmiðið af sautján. Og á þessar tuttugustu og þyrstu öld erum við orðin samtengd í bjarga vatni heimsins frá gróðahyggju, sóðafólki heimsins og skammsýni. Vatnið vex ekki eða minnkar. Við verðum að tryggja að börnin sem fæðast verði ekki mettuð mengun og skeytingarleysi okkar kynslóða. Ábyrgðin er okkar allra, okkar sem hér erum. Okkur og samfélögum okkar ber okkur að fara vel með, gæta að vatnið spillist ekki mengandi efnum og saurgerlar berist ekki í vatn. Kristnir söfnuðir þessarar þjóðar geta ekki aðeins lagt mikið til náttúruverndar heldur er trú beinlínis lífblessandi. Þjóðkirkjan ætti að beita sér fyrir að allar systurkirkjur sameinist um að vernda vatn veraldar. Það geta kirkjurnar gert með því að þrýsta á  og beita stjórnvöld heimsins verndi vatn og stuðli að góðum frárennslisaðgerðum. Við ríkari hluti heimsins eigum að beita okkur fyrir að vatnsstressaðar þjóðir fái hjálp við vatnsmál. Við getum líka keypt gjafabréf Hjálparstarfs kirkjunnar. Það kostar ekki nema 180 þúsund krónur að gera brunn í Afríku og aðeins 55 þúsund að gera stóran vatnsgeymi. Sjötta markmið Sameinuðu þjóðanna er ekki markmið fyrir aðra heldur okkur. Vatn tengir okkur öll.

Hallgrímskirkja 15. september. 12,05 – 12,45.

globe illustration by Jack Cook, Woods Hole Oceanographic Institution (©); and Adam Nieman.Spheres showing:


(1) All water (largest sphere over western U.S., 860 miles (1,385 kilometers) in diameter)
(2) Fresh liquid water in the ground, lakes, swamps, and rivers (mid-sized sphere over Kentucky, 169.5 miles (272.8 kilometers) in diameter), and
(3) Fresh-water lakes and rivers (smallest sphere over Georgia, 34.9 miles i(56.2 kilometers) n diameter).


https://www.visindavefur.is/svar.php?id=58906#

Um vatnið t.d. magn: https://www.usgs.gov/special-topic/water-science-school/science/how-much-water-there-earth?qt-science_center_objects=0#qt-science_center_objects

Ef vatn Jarðarinnar væri rétthyrndur ferningur myndi hver hlið vera um 1120 km á lengd.

Barlow og Clarke 2002.

Barlow og Clarke 2002: 12.

Shiva 2002.

Palanappian and Gleick 2009, og heimasíða Sameinuðu þjóðanna.

UNESCO Water Newsletter NO249 2011.

https://sustainabledevelopment.un.org/sdg6