Vel heppnuð sólrík vorhátíð

15. maí 2023
Fréttir

Sól, sól skín á mig,
ský, ský burt með þig.
Gott er í sólinni að gleðja sig,
sól sól skín á mig.

Vorhátíð Hallgrímskirkju var haldin í gær, 14. maí og sólin skein. Hátíðin hófst á fjölskylduguðsþjónustu sem var full af hæfileikaríkum börnum og ungmennum sem ýmist sungu, dönsuðu eða spiluðu á fiðlu. Stúlknakór Reykjavíkur söng, Danshópurinn Dass dansaði og Fiðluhópur frá Allegro Suzuki tónlistarskólanum spilaði. Það var mjög góð aðsókn á vorhátíðina en um 300-400 manns sóttu hátíðina. Biblíusaga dagsins var Á bjargi byggði og börnin fengu að snerta sand og steina á meðan þau heyrðu söguna. Hinn almenni bænadagur í kirkjuárinu var í gær og söfnuðurinn bjó til bænasnúra í kórnum í sameiningu og svo var beðið fyrir bænarefnunum. Trúðurinn Daðla kom í heimsókn og vakti mikla lukku og kátínu barnanna. Eftir guðsþjónustuna var margt skemmtilegt í boði, sjóræningjahoppukastali, grillaðar pylsur, popp, leikir, húllahringir, sápukúlur, krítar og föndur. Þetta var vel heppnuð og skemmtileg vorhátíð í Hallgrímskirkju og starfsfólk Hallgrímskirkju þakkar söfnuðinum fyrir frábæran dag!

María Elísabet Halldórsdóttir tók myndirnar.