Vendipunktur þakklætis

29. september

Vendipunktur þakklætis

Sr Eiríkur Jóhannsson

Flutt 21. september

14. sunnudagur eftir þrenningarhátíð

Lexía: Sír 50.22-24
Nú skuluð þér lofa Guð alheims,
hann sem hvarvetna gerir máttarverk
og veitir oss vegsemd alla ævi frá fæðingu
og breytir við oss samkvæmt miskunn sinni.
Gefi hann oss gleði í hjarta
og veiti Ísrael frið um vora daga
eins og var fyrir örófi alda.
Megi miskunn hans stöðug vera með oss
og megi hann frelsa oss um vora daga.

Pistill: Gal 5.16-24
En ég segi: Lifið í andanum og þá fullnægið þið alls ekki girnd holdsins. Holdið girnist gegn andanum og andinn gegn holdinu. Þau standa hvort gegn öðru til þess að þið gerið ekki það sem þið viljið. En ef þið leiðist af andanum þá eruð þið ekki undir lögmáli.
Holdsins verk eru augljós: frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur, öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt. Og það segi ég ykkur fyrir, eins og ég hef áður sagt, að þeir sem slíkt gera munu ekki erfa Guðs ríki.
En ávöxtur andans er: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Gegn slíku er lögmálið ekki. En þeir sem trúa á Krist hafa krossfest holdið með ástríðum þess og girndum.

Guðspjall: Lúk 17.11-19
Svo bar við á ferð Jesú til Jerúsalem að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu. Og er hann kom inn í þorp nokkurt mættu honum tíu líkþráir menn. Þeir stóðu álengdar, hófu upp raust sína og kölluðu: „Jesús, meistari, miskunna þú oss!“
Jesús sá þá og sagði við þá: „Farið og sýnið yður prestunum.“ Þeir héldu af stað og nú brá svo við að þeir urðu hreinir.
En einn þeirra sneri aftur er hann sá að hann var heill orðinn og lofaði Guð hárri raustu. Hann féll fram að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. Jesús sagði: „Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?“ Síðan mælti Jesús við hann: „Statt upp og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér.“

Flest höfum við reynslu af eða kynni af umskiptum, eins konar vendipunkti þegar breytingar verða og getur það verið í stóru sem smáu. Einmitt nú er vendipunktur í náttúrunni á Haustjafndægum þegar nótt og dagur eru jafn löng en síðan er það nóttin og myrkrið sem nær yfirhönd og lengist svo dag frá degi allt til jóla. Náttúrufarið hér á okkar góða landi krefur okkur um að takast á við breytileika, birtustigið og veðurfarið eru að heita má stöðug ögrun. Sum okkar kunna þessu vel meðan það leggst þungt á aðra. Staðreyndin er eigi að síður sú að líf okkar allra og aðstæður eru síbreytilegar, breytileikinn í náttúrunni er okkur sístæð áminning um það, við göngum gegnum fjölmörg þroskastig á okkar æviferli. Breytingarnar bæði á hinum ytri aðstæðum og jafnvel líka á hinum ytri eru oft á tíðum óumflýjanlegar. Það sem við hvert og eitt höfum hins vegar möguleika og frelsi til, það er hvernig við höndlum og túlkum þær aðstæður sem við hverju sinni stöndum frammi fyrir á okkar lífsgöngu.

Hvernig við sjáum okkur í samhengi tilverunnar er ákaflega misjafnt. Mikilvægt er öllum að hafa eins konar ramma túlkunar. Einhvers konar handfestu á þeim hverfanda hveli sem tilveran er.

Hið trúarlega viðhorf, hin kristna leið er ein aðferð til að staðsetja sjálfan sig í veröldinni. Þar gegnir Biblía hin heilaga ritning mikilvægu hlutverki. Hún er vitnisburður og leiðsögn sem fylgt hefur kristnu fólki öldum saman. Hún geymir ævafornar túlkunarsögur og lifandi vitnisburð um Jesú Krist en það er og hlýtur alltaf að verða sá túlkunarlykill sem kristinn einstaklingur notar til skilnings. Guðspjöllin vitna um það hvernig hann kom inn með nýja nálgun og túlkun á því sem áður þótti sjálfgefið. Í nútímanum má segja að stöðugt standi á þessu forna riti ákveðin sönnunarbyrði, spurning og raunar krafa um það hvort það sem hún geymir hafi eitthvað fram að færa til okkar sem nú lifum. Textar sem eiga uppruna sinn í gjörólíku umhverfi og samhengi sem ekki er alltaf að fullu ljóst, þrátt fyrir langvarandi fræðilegar rannsóknir.

Líkt og í dag þá lesum við stutta pistla úr biblíunni sem búið er að velja saman fyrirfram. Við lesum úr gamla testamentinu og síðan úr bréfunum sem flest eru skrifuð af Páli postula og svo er það guðspjallið sem geymir einhverja frásögn af orðum eða gjörðum Jesú Krists.

Að þessu sinni er það frásögnin af lækningu tíu líkþrárra manna sem við heyrðum. Fyrir þann eða þá sem væri að heyra eða lesa þessa frásögn í fyrsta sinni þá væri ekki alveg augljóst margt þarna sem í raun skiptir máli fyrir skilning á frásögninni. Vissulega er meginatriðið augljóst og skilst án nokkurrar ritskýringar einmitt þetta að Jesús bregst við neyð manna sem kalla til hans og biðja hann um hjálp. En hvað er að vera líkþrár, hvers vegna eru þeir saman í hóp, hvers vegna áttu þeir að sýna sig prestunum og hvaða máli skiptir að sá sem snéri við var samverji? Þetta eru dæmi um spurningar sem athugull lesandi gæti spurt sig.

Í þriðju Mósebók má finna skýrar reglur um það hvar gera skuli ef einstaklingur fær einkenni sjúkdóms á húð. Þrátt fyrir skort á þeirri þekkingu sem við höfum nú um stundir á sviði smitsjúkdóma þá var þarna sett fram ströng regla að slíkir einstaklingar skyldu í raun vera settir úr mannlegu samfélagi og máttu ekki hafa samneyti, ekki einu sinni við sitt fólk og fjölskyldu. Þess vegna var það ekki óalgengt að þetta fólk héldi saman og hjálpaðist að í neyð sinni og kröm. Ef svo færi að sjúkdómseinkennin hyrfu þá átti að fara til prestanna sem skoðuðu og staðfestu batann og þá var hægt að komast heim og halda áfram með líf sitt.

Það var þess vegna ekki undarlegt að þeir tækju sprettinn þegar þeim varð ljóst að þeir hefðu fengið lækningu. Allir nema samverjinn en hver var hann? Hann var nefnilega af öðru þjóðarbroti og milli samverja og Ísraelsmanna var ekki bara tortryggni heldur löng saga mikils fjandskapar.

Einmitt þess vegna er þess sérstaklega getið að það var hann sem ekki tilheyrði sem nam staðar og áttaði sig á því hvílíka gjöf hann hafi hlotið. Eiginlega nýtt líf og hann snýr við og fellur á kné í þakklæti.

 

Þessi frásögn og raunar fleiri verða svo síðar til þess að styrkja Pál postula í þeirri sannfæringu sinni að boðskapur og leiðsögn Jesú Krists er ekki eingöngu ætlaður hans þjóð heldur einmitt öllum, öllu mannkyni án allra ytri skilyrða. Það er einmitt meginatriðið að það er trúin ein sem blífur, það er trúin sem bjargar líkt og Kristur segir við samverjann.

Að gangast undir trúna á Jesú Krist varð alger vendipunktur í lífi Páls, hann lagði þaðan í frá allt í sölurnar til að segja frá og boða þessa nýju lífssýn sem hann hafði öðlast.

Á hverjum degi þiggjum við fjölmargt sem við teljum sjálfsagt og engin þörf á að þakka fyrir, okkur er gjarnt á að tala um rétt okkar til þessa eða hins.Við erum oft gröm og reið yfir því að fá ekki notið ýmiss af því sem okkur virðist að aðrir hafi umfram okkur. Í þessum textum er okkur sýnt hversu mikilvægt er þakklætið er í lífi okkar.Í hinni löngu upptalningu Páls á kostum og löstum er okkur bent á þá staðreyndað með því að gangast undir þá lífssýn sem sá andi frelsis og gleði sem Kristur kemur með og leysir okkur undan oki lögmáls og dóma þá kvikni löngun og vilji til að lifa með aukinni sjálfstjórn og forðast það sem ekki er gagnlegt eða vænlegt til að veita gott líf. Hann setur þetta fram sem andstæður í eins konar rhetoriskum tilgangi en meginatriðið er að nú er nýtt orðið til, nýtt sem veitir aðgang að nýrri túlkun á veröldinni og því sem við mætum á okkar lífsins leið. Vendipunkturinn er þannig ekki bundinn við einhvern tíma heldur persónulega stöðu okkar hvers og eins.

Andstæðuparið hold og andi kallast á við önnur slík eins og hið forna um kosmos og kaos reglu og óreiðu.Hugmyndin um sköpun já sístæða sköpun Guðs er akkúrat þessi að koma á reglu og viðhalda henni, það kostar alltaf einhverja orku. Við sjáum þetta og þekkjum allt í kringum okkur, ef við ekki sinnum viðhaldi eigna okkar hýbýla og faratækja þá grotna þau niður, hið sama á eiginlega við um okkar dýrmætustu sköpun sem er líkami okkar þar sem hreyfing og heilbrigt mataræði gegnir lykilhlutverki ásamt með rækt hins andlega.

Í okkar persónulega lífi má kannski segja að andstæðurnar séu sjálfstjórn og agaleysi. Með því að tileinka sér sjálfstjórn og jákvætt viðhorf til lífsins þá erum við að leitast við að hefja okkur yfir hina frumstæðustu kenndir og hvatir sem með okkur búa líkt og allra annarra lífvera.

Í þessu samhengi hér þá er verið að gefa okkur þau skilaboð að með því að veita andanum hinum heilaga anda viðtöku, með því að tileinka sér grundvallarviðhorf þakklætis og jákvæðrar hugsunar, þá geti einmitt orðið vendipunktur til góðs í okkar lífi.

Megi góður Guð gefa að við sem flest getum opnað hug og hjarta fyrir hinni jákvæðu orku trúar og heilags anda, fyrir þakklætinu og gerum það í senn fyrir okkur sjálf og til að verða sem farvegur og miðill þess til þeirra sem við umgöngumst og deilum kjörum með. Fyrir samfélag okkar og þjóð. Í Jesú nafni amen.