Vika 2 í samkomubanni

28. mars 2020


„Mikið hlakka ég til að koma í jólamessuna mína“  var kallað hressilega í átt til mín í Hallgrímskirkju nú í vikunni.  Inn í kirkjuna gekk kona sem er fastur gestur á jólum.

Sammála,  mikið hlakka ég til jólamessunnar og allra daganna þegar við getum orðið við sjálf öll á einhvern hátt.  Komið saman á almannfæri, í kvikmyndahúsum, leikhúsum, heimahúsum, skemmtistöðum,  undir beru lofti og óbyggðum stöðum, jafnvel fjöllum.

Það leitaði á hugann guðspjall síðasta sunnudags um undrið þegar Jesús mettaði mörg þúsund manns á fjallinu.  Fyrst hafði hann ætlað að draga sig í hlé eins og svo margir þurfa að gera  í dag til að vernda sig sjálf og aðra.

En áður en dagur leið þá var kominn saman fjöldi fólks  -  börn og fullorðnir,  samkoma.   Og þegar margir koma saman eftir langa ferð þarf vitanlega eitthvað að borða.  Góð ráð dýr en Jesús sá og skynjaði tækifæri í erfiðri stöðu.
Jesús er þar sem þú ert, úrræðagóður, lausnamiðaður.

Úrræðin í sögunni góðu voru í gjöf drengsins sem kom með brauðin og fiskana.

Sögur Biblíunnar er margræðar, litríkar, skemmtilegar og við finnum þennan notalega yl af manneskjulegri forvitni, vandræðum, lausnum, örvæntingu, væntingum, trú, ótta og framtíðardraumum með ívafi af von.  Skvaldur í fólki , ferðalúi og svo allt í einu eru allir svangir.   Við skulum rifja upp stemminguna í sögunni  í Jóhannesarguðspjalli þegar:

......Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við Jesús : „Hér er piltur sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska en hvað er það handa svo mörgum?“
Jesús sagði: „Látið fólkið setjast niður.“ Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu. Nú tók Jesús brauðin, gerði þakkir og skipti þeim út til þeirra sem þar sátu og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu. Þegar fólkið var orðið mett segir Jesús við lærisveina sína: „Safnið saman leifunum svo ekkert spillist.“


Síðan var gengið frá eftir máltíðina, allir mátulega saddir, tilbúnir í heimferðina.
Þetta kallar fram aðra mynd,  mynd af samfélaginu um borð Guðs í altarisgöngunni.  Þar sem við  komum saman, nærumst á táknrænan hátt í brauði og víni,  göngum frá afgöngum og förum nærð út í lífið. Treystum að við stefnum í örugga höfn undir góðri leiðsögn, úr háskanum.

Ég hlakka til þegar hægt verður að safnast saman um borð Guðs til kvöldmáltíðar.  Finna þar nærveru, mettun, forsjón og forsjálni eins og í samfélaginu  sem Kristur leiddi forðum um tvö brauð og fiska, undur og stórmerki .

..  mikið hlakka ég til.
Það verður gott að sjást aftur.
Og takk  fyrir að hafa orð á þessu góða samferðakona og minna á tilhlökkun fyrir framtíðinni.
Það koma jól.