Viltu gefa bænatré?

Bænatréð í Hallgrímskirkju
Bænatréð í Hallgrímskirkju

Bænatréð í Hallgrímskirkju er fullnýtt. Komufólk í Hallgrímskirkju biður gjarnan bænir og bindur garnspotta á bænatréð í mismunandi litum og í samræmi við bænirnar. Bænatré eru gjarnan í Hallgrímskirkju á föstunni fyrir páska. Nú er búið að binda svo marga spotta á tréð að fleiri komast varla fyrir. Tréð hefur verið við inngang kikjunnar en í dag fluttum við tréð upp í kór. Þar verður það næstu vikur. Brumin á bænatrénu, sem er birkitré, eru byrjuð að springa út. Birkilaufin eru sýnileg eins og svar af hæðum við öllum mismunandi og litríku bænunum. En hvað með bænir þeirra sem koma í kirkjuna næstu vikur? Fá þau ekki tækifæri til að tákna bænir sínar með því að hengja litríka spotta á bænatré? Jú, ef einhver er svo gjafmildur að gefa Hallgrímskirkju nýtt tré! Er 2,5-3 metra hátt birkitré í garðinum þínum sem langar til að fara í kirkju? Vilt þú gefa það kirkjunni til að það þjóni sem bænatré? Ef svo er hafðu samband við okkur. Síminn er 510 1000. Við getum komið og sótt tréð!

Og niðurstaðan varð að Hallgrímskirkja fékk nýtt bænatré að gjöf. Kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæma gáfu tré, sem óx í Fossvogskirkjugarði, og er nú notað til að binda á bænaspotta. Með fylgdi mikill fjöldi greina sem notaðar verða á pálmasunnudegi. sáþ