Vor í lofti

31. mars 2020
Vor í lofti

Það er margt mjög erfitt þessa dagana en mikið var laugardagurinn síðastliðinn yndislegur. Það var gott veður, vor í lofti og fólk, með allavega tveggja metra millibili, útum allan bæ. Það var mjög gleðilegt að sjá sólina, sjá snjóinn bráðna og sjá allt fólkið.

Árið 2020 hefur verið skrítið ár fyrir margar fjölskyldur. Í byrjun árs fóru leikskólar í verkfall og leikskólabörn voru því heima. Börnin fóru hingað og þangað í pössun eða með mömmu eða pabba í vinnuna. Svo lauk verkfallinu og það voru allir svo tilbúnir í rútínuna aftur.

En þá skall eitthvað allt öðruvísi á, Covid-19 veiran, sem hefur hægt og rólega sett margt á hliðina í öllum heiminum. Enginn sá þetta óraunverulega ástand fyrir sem nú er í gangi.

Margir foreldrar eru að vinna að heiman með börnin sín heima. Það tvennt fer ekkert rosalega vel saman. Einhverjir hafa misst vinnuna sína eða fengið skert hlutfall í vinnunni. Fyrir börnin er erfitt að fá ekki að leika við alla vini sína og það getur verið erfitt fyrir börnin að skilja þessar aðstæður.

Það er mikið álag á fjölskyldum. Börnin eru undir álagi og foreldrar eru undir álagi. Það eru líklega flestir í heiminum undir einhvers konar álagi  í þessu ástandi.

En það er ekki allt hræðilegt við þetta ástand. Ég veit að margar fjölskyldur eru að gera gott úr hlutunum, gera skemmtilega hluti, hafa eitthvað fyrir stafni og búa til gæðastundir saman. Ég sé það á samfélagsmiðlunum. Fólk er að nota tæknina og setur margt á netið. Sem er dásamlegt og við fáum allskonar hugmyndir frá hvort öðru. Það hjálpar okkur félagslega, að fylgjast með öðrum á netinu þegar við getum ekki hitt þau og það er ein leið til að eiga samskipti.

Bangsar út í glugga er frábært framtak sem hófst erlendis. Margir eru að reyna að búa til einhverjar rútínur heimafyrir og göngutúr er ofarlega á lista hjá flestum. Og þá eru bangsar út í glugga algjör snilld, það gefur börnunum og öllum, verkefni og ánægju af því að sjá bangsana út í glugga í göngutúrnum. Það er mjög ánægjulegt að sjá hvað margir eru að taka þátt í þessu verkefni.

Við söknum eðlilega vina okkar, ættingja og venjulega rútínu lífið okkar. Það kemur aftur. Covid-19 veiran er vonandi tímabil og á meðan verðum við að standa saman og fara eftir því sem Alma, Víðir og Þórólfur segja okkur.

Mér finnst gott að taka einn dag í einu og og mér finnst gott að grípa í æðruleysisbænina.

Ég er tveggja barna móðir og langaði að deila því hvernig lífið væri hjá minni fjölskyldu þessa dagana. Ég hvet ykkur til þess að gera slíkt hið sama. Það er gott að tjá sig, deila því, því við viljum heyra í hvert öðru.

Hugur minn er hjá öllum þeim sem eru með veiruna og eru veik af hvers kyns sjúkdómum. Ég bið góða Guð að vaka yfir öllu því fólki sem er veikt og veita þeim styrk í þeirra veikindum.

Ég er þakklát öllu heilbrigðisstarfsfólki, skólastarfsfólki, umönnunarstéttum fyrir þeirra vinnu. Ég er þakklát starfsfólki í matvörubúðum og apótekum fyrir þeirra vinnu. Ég er þakklát fyrir þau fyrirtæki sem eru að senda mat heim til fólks. Ég er þakklát fyrir það hvað við stöndum þétt og vel saman.

Í Filippíbréfinu 1:3-6 stendur:

Ég þakka Guði mínum í hvert skipti sem ég hugsa til ykkar og geri ávallt í öllum bænum mínum með gleði bæn fyrir ykkur öllum vegna samfélags ykkar um fagnaðarerindið frá því þið tókuð við því og allt til þessa. Ég fulltreysti einmitt því að hann, sem byrjaði í ykkur góða verkið, muni fullkomna það allt til dags Jesú Krists.

Vor og sumar kemur og vonandi verður lífið komið í nokkuð venjulegar skorður þegar sumarið kemur.

Blessuð sólin elskar allt,

allt með kossi vekur,

haginn grænn og hjarnið kalt

hennar ástum tekur.

Geislar hennar út um allt,

eitt og sama skrifa,

á hagan grænan, hjarnið kalt:

Himneskt er að lifa!

Hannes Hafstein.