Yfir þúsund manns heimsóttu Hallgrímskirkju á þriðja sunnudegi í aðventu.

19. desember 2023

Yfir þúsund manns heimsóttu Hallgrímskirkju á þriðja sunnudegi í aðventu. Dagurinn hófst með ótrúlega skemmtilegri fjölskylduguðsþjónustu þar sem Graduale Futuri úr Langholtskirkju fluttu helgileik undir stjórn Sunnu Karenar Einarsdóttur, Rósa Hrönn Árnadóttir, Ragnheiður Bjarnadóttir, Erlendur Snær Erlendsson, Lára Ruth Clausen og Kristný Rós Gústafsdóttir sáu um barnastarfið og sr. Eiríkur Jóhannsson predikaði. Organisti var Björn Steinar Sólbergsson. Forspilið flutti Clementina Lucia Sinis nemandi við Tónskóla Þjóðkirkjunnar og Gabríella Ragnheiður Demak Kristjánsdóttir lék á fiðlu. Guðsþjónustan endaði svo á jólaballi í suðursal þar sem dansað var í kring um jólatréð, jólasveinar mættu á svæðið og sunginn var afmælissöngur fyrir Einar Karl Haraldsson formann sóknarnefndar Hallgrímskirkju. Yfir 300 messugestir sóttu fjölskylduguðsþjónustuna.

Viðburðurinn Syngjum jólinn inn hófst í fyrra með fullu húsi og aftur fylltist kirkjan af syngjandi fólki sem fór heim eftir tónleikana með hjartað fullt af jólagleði.
Sungnir voru margir af ástsælustu jólasálmum íslendinga og auk þess sameinuðust Kór Hallgrímskirkju, Kammerkórinn Hljómeyki og Kammerkór Seltjarnarneskirkju í hundrað manna kór og fluttu falleg jólalög og leiddu almennan söng undir stjórn Steinars Loga Helgasonar og Friðriks Vignis Stefánssonar sem sköpuði frábæra stemningu í kirkjunni og léku við hvern sinn fingur. Björn Steinar Sólbergsson lék á Klais-orgelið og söfnuðurinn söng í kapp við það.
Prestar safnaðanna tóku einnig þátt í tónleikunum með lestrum úr ritningunni og biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir blessaði söfnuðinn í lok tónleikanna.

Þetta var einstakt kvöld þar sem yfir 700 manns fylltu hjörtun af söng og við þorum að staðfesta það að öll þau sem voru í kirkjunni séu nú komin í hið mesta jólaskap.

Meðfylgjandi myndir úr fjölskylduguðsþjónustunni tók Alvilda Eyvör Elmarsdóttir og af tónleikunum Syngjum jólin inn! tók Hrefna Harðardóttir.

HALLGRÍMSKIRKJA - ÞINN STAÐUR!