Yfr 1000 börn í Hallgrímskirkju á aðventunni

Sýningin Jólin hans Hallgríms er haldin í áttunda sinn í Hallgrímskirkju um þessar mundir. Sýningin var fyrst haldin í Þjóðminjasafninu árið 2014 og var jólasýning Þjóðminjasafnsins það ár.

Hallgrímskirkja hefur boðið leik- og grunnskólabörnum í Reykjavík og nágrenni, að koma í heimsókn og á sýninguna Jólin hans Hallgríms í aðdraganda jólanna síðustu sjö ár.

Í heimsókninni fá börnin stutta leiðsögn um kirkjuna, hitta organistann, Björn Steinar Sólbergsson sem segir frá stærsta orgeli landsins og spilar jólalag fyrir þau.

Sýningin er haldin í Norðursal kirkjunnar þar sem baðstofa var sett upp. Á sýningunni er sagt frá því hvernig jólin voru fyrir 400 hundruð árum á Íslandi. Börnin fá stutta endursögn úr bókinni Jólin hans Hallgríms eftir Steinunni Jóhannesdóttur og myndum eftir Önnu Cynthiu Leplar. Bókin segir frá undirbúningi jólanna hjá Hallgrími Péturssyni sem ungur drengur og fjölskyldu hans.

Á hverri aðventu koma nokkur hundruð börn í heimsókn í Hallgrímskirkju. Í ár verða börnin yfir þúsund sem munu sjá sýninguna Jólin hans Hallgríms í Hallgrímskirkju.

Tekið verður á móti heimsóknum frá 1.-16. desember 2022.

Hver heimsókn tekur u.þ.b. 40 mín. Hópar geta bókað heimsókn með því að senda tölvupóst á netfangið kristny@hallgrimskirkja.is. Það eru ekki mörg laus pláss eftir.

Næsta sunnudag, 4. des, 2. í aðventu kl. 11:00 verður sunnudagaskólinn haldinn í baðstofunni og börnunum boðið á sýninguna.

Öllum barnahópum er svo að endingu boðið að fara upp í turninn og líta yfir Reykjavík í jólabúning.