Maríustíllinn – já, nei og algert frelsi
27.03.2023
Fréttir
Kall Guðs berst okkur öllum í verðandi lífsins. Við erum aldrei svo illa komin að allt lokist. Erkiboðskapur kristninnar er ekki um prósentur gjaldenda í kirkjufélagi heldur að Guð er nær okkur en lífið sjálft. Við erum alltaf í kompaníi með Guði hvert sem við förum og hvað sem við gerum. Guð alltaf nærri, aldrei ágengur heldur virðandi vinur og elskhugi. „Óttast þú eigi ... því að þú hefur fundið náð hjá Guði.“ Maríustílllinn er: „Já, verði mér eftir orðum þínum.“