Aðventu- og jólatónleikaröð í Hallgrímskirkju 2023

29. nóvember 2023

Aðventu og jólatónleikaröð í Hallgrímskirkju hefst með glæsilegri barokkhelgi 2. og 3. desember 2023.

Fyrstu tónleikar tónleikaraðarinnar eru BAROKK ORGELTÓNLEIKAR með organistanum Eyþóri Inga Jónssyni frá Akureyri.
Eyþór Ingi flytur bjarta aðventutónlist frá barokktímanum á Klais-orgelið eftir Balbastre, Scheidemann, Böhm, Scheidemann, Bach og Corrette.
Tónleikarnir verða laugardaginn 2. desember kl. 12. Aðgangseyrir er 2.500 kr.

Á sunnudaginn 3. desember kl. 17.00 fögnum við fyrsta sunnudeg í aðventu með stórtónleikunum BAROKK Á AÐVENTUNNI með Barokkbandinu Brák, sólóistum og Kór Hallgrímskirkju. Á tónleikunum verða flutt verk eftir Georg Philipp Telemann og Georg Friedrich Händel. Hljómsveitarsvíta eftir Telemann, Orgelkonsert í F-dúr eftir Handel og kantatan Nun komm der Heiden Heiland (Nú kemur heimsins hjálparráð) eftir Telemann fyrir kór, hljómsveit og einsöngvara. Leikið er á upprunahljóðfæri í barokkstillingu. Fiðluleikarinn Georg Kallweit leiðir Barokkbandið Brák að þessu sinni, en hann hefur getið sér gott orð fyrir flutning á barrokktónlist og sérstaklega tónlist Telemann. Aðgangseyrir 4.900 kr.

Kantatan verður einnig flutt í Kantötuguðsþjónustu í kirkjunni kl. 11 á þessum fyrsta sunnudegi í aðventu.

Sunnudaginn 17. desember kl. 17 gefst kirkjugestum tækifæri á að njóta kórsöngs og syngja fullum hálsi með Klais-orgelinu og kórum í Hallgrímskirkju og  á okkar geisivinsælu aðventutónleikum SYNGJUM JÓLIN INN!
Að syngja jólin inn er vel þekkt á Englandi og víða á Norðurlöndunum. Þar gefst kirkjugestum kostur á að undirbúa jólahátíðina með því að syngja marga af ástsælustu jólasálmum þjóðarinnar auk þess að hlýða á fallegan kórsöng.
Kór Hallgrímskirkju syngur undir stjórn Steinars Loga Helgasonar en auk þess fáum við góða gesti; Kammerkórinn Hljómeyki og Kammerkór Seltjarnarneskirkju sem syngja og leiða almennan söng undir stjórn Steinars Loga Helgasonar, Erlu Rutar Káradóttur og Friðriks Vignis Stefánssonar. Björn Steinar Sólbergsson leikur á orgelið. Prestar safnaðanna taka þátt í tónleikunum með lestrum úr ritningunni og biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir blessar söfnuðinn í lok tónleikanna. Aðgangur er ókeypis og öll velkomin meðan húsrúm leyfir.

JÓLIN MEÐ BACH. 26. desember – Annan í jólum kl. 17 flytur Björn Steinar Sólbergsson, organisti Hallgrímskirkju nokkrar af helstu jólaperlum Johann Sebastians fyrir orgelið, ma. eitt þekktasta jólaorgelverk tónskáldsins, Pastorale BWV 590 og Prelúdíu, andante (BWV 528/II) og fúgu í G-dúr BWV 541.
Björn Steinar flytur auk þess 6 sálmforleiki Bachs úr Litlu orgelbókinni Orgelbüchlein. Félagar úr Kór Hallgrímskirkju syngja undir stjórn Steinars Loga Helgasonar samsvarandi sálmalög í raddsetningu Bachs. Aðgangseyrir 3.500 kr.

Að lokum bjóðum við upp á HÁTÍÐARHLJÓMAR VIÐ ÁRAMÓT er við kveðjum gamla árið og tökum vel á móti hinu nýja.
Hátíðarhljómar við áramót á Gamlársdag hafa um árabil notið mikilla vinsælda í tónlistarlífi Hallgrímskirkju. Í ár gefst tónleikagestum kostur á að njóta hátíðlegara tóna fyrir orgel og trompet í ljósaskiptunum á síðasta degi ársins. Flytjendur eru Jóhann Nardeau trompetleikari og Björn Steinar Sólbergsson organisti í Hallgrímskirkju. Aðgangseyrir 4.000 kr.-

HALLGRÍMSKIRKJA - ÞINN STAÐUR!