Fjölbreytt tónleikadagsskrá á vegum Hallgrímskirkju fram á vor.

11. janúar

Fjölbreytt tónleikadagsskrá verður á vegum Hallgrímskirkju fram á vor undir yfirskriftinni Hallgrímskirkja Tónleikar Vetur & Vor 2024.

Tónleikaröðin hefst sunnudaginn 28. janúar kl. 17 með tónleikunum Cantoque syngur Þorkel í samstarfi við Myrka Músíkdaga þar sem sönghópurinn Cantoque Ensemble flytur efnisskrá helgaða kórtónlist Þorkels Sigurbjörnssonar. Stjórnandi á tónleikunum er Steinar Logi Helgason.

Á hádegistónleikum laugardaginn 3. febrúar kl. 12 verða Fjölskyldutónleikar í samstarfi við Orgelkrakka.
Flytjendur eru þær Guðný Einarsdóttir og Sigrún Magna Þórsteinsdóttir auk orgelnemenda.

Á hádegistónleikum laugardaginn 2. mars kl. 12 flytur Steinar Logi Helgason organisti og kórstjóri við Hallgrímskirkju efnisskrá tengda föstunni eftir Johann Sebastian Bach, Olivier Messiaen og César Franck.

Á Boðunardegi Maríu sunnudaginn 17. mars kl. 17 verður sunginn aftansöngur þar sem Björn Steinar Sólbergsson organisti Hallgrímskirkju flytur Ave Maris Stella eftir franska barokktónskáldið Nicolas De Grigny ásamt sönghópnum Cantores Islandiae sem syngja Gregorska hymnan Ave Maris Stella.

Pálmasunnudag 24. mars kl. 17 heldur Kór Hallgrímskirkju föstutónleika undir yfirskriftinni Tenebrae Factae Sunt. Þar hljóma meðal annars verk eftir Poulenc, Messiaen, Pärt, Tavener, Gesualdo og Mäntyjärvi. Einnig verða frumflutt ný verk eftir Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttur og Finn Karlsson sem samin voru sérstaklega fyrir Kór Hallgrímskirkju.

Í Dymbilviku laugardaginn 30. mars kl. 17 verður flutt Stabat Mater eftir eistneska tónskáldið Arvo Pärt. Flytjendur eru Jóna G. Kolbrúnardóttir sópran, Guja Sandholt messósópran, Eyjólfur Eyjólfsson tenór, Hlíf Sigurjónsdóttir fiðluleikari, Martin Frewer lágfiðluleikari, Þórdís Gerður Jónsdóttir sellóleikari og Ragnheiður Ingunn Jónsdóttir stjórnandi. Auk Stabat Mater flytur hópurinn verk eftir Hildigunni Rúnarsdóttur, Elínu Gunnlaugsdóttur og Tryggva M. Baldvinsson.

Á hádegistónleikum laugardaginn 6. apríl kl. 12 koma fram þær Erla Rut Káradóttir organisti Háteigskirkju í Reykjavík og Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað sópran.

Sunnudaginn 14. apríl kl. 17 verða kórtónleikar þar sem sönghópurinn Hljómeyki fagnar 50 ára starfsafmæli. Á tónleikunum flytja þau verk sem hafa verið samin sérstaklega fyrir kórinn í gegnum tíðina. Stjórnandi kórsins er Erla Rut Káradóttir.

Laugardaginn 20. apríl kl. 14 verða tónleikar í samstarfi við Listaháskóla Íslands þar sem nemendur í tónlistardeild skólans koma fram.

Sumardaginn fyrsta 25. apríl kl. 17 verður haldin „Söngvahátíð barnanna“ í samstarfi við Söngmálastjóra Þjóðkirkjunnar þar sem fram koma barnakórar við kirkjur.

Á hádegistónleikum laugardaginn 4. maí kl. 12 leikur Eyþór Franzson Wechner organisti Blönduóskirkju á Klais orgel kirkjunnar.

Hvítasunnudag 19. maí verður hátíð í Hallgrímskirkju þar sem Frobenius kórorgel kirkjunnar verður endurvígt í hátíðarmessu eftir gagngera endurbyggingu.
Kl. 17 sama dag verða vígslutónleikar þar sem flutt verður efnisskrá fyrir tvö orgel og kór. Flytjendur eru Björn Steinar Sólbergsson orgelleikari, Matthías Harðarson orgelleikari, Kór Hallgrímskirkju og Steinar Logi Helgason kórstjóri og orgelleikari. Tekið verður á móti frjálsum framlögum.

Tónleikaröðinni líkur með hádegistónleikum laugardaginn 1. júní kl. 12 þar sem flutt verður efnisskrá með verkum eftir tékkneska tónskáldið Petr Eben. Það er Lenka Mátéová organisti Kópavogskirkju sem hefur tekið efnisskránna saman. Flytjendur auk Lenku eru þau Hanna Dóra Sturludóttir messósópran og Frank Aarnink slagverksleikari.

Miðasala fer fram í Hallgrímskirkju og á www.tix.is
Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Hallgrímskirkju https://www.hallgrimskirkja.is

Hallgrímskirkja - Þinn staður!