Nakið altari
13.04.2022
Fréttir
Af hverju er allt tekið af altarinu í kirkjunni á skírdagskvöldi? Af hverju er altarið nakið föstudaginnlanga og allt fram á páskamorgun? Í Hallgrímskirkju sem og mörgum kirkjum heimsins er Getsemanestund á skírdagskvöldi. Eftir sálmasöng eru ljósin slökkt í kirkjunni, prestur afskrýðist hökli og síðan er lesinn texti í 14 kafla Markúsarguðspjalls um för Jesú til Getsemanegarðs. Slökkt er á altarisljósunum. Ljósastjakar, kross, bækur, vasar og dúkur eru borin fram. Þegar altarið hefur verið strípað er í Hallgrímskirkju borið fram Pelíkanaklæði Unnar Ólafsdóttur. Það er mynd fornrar sögu um pelíkana sem gaf ungum sínum af blóði sínu til að þeir mættu lifa. Þá sögu túlkuðu trúmenn aldanna sem táknsögu um að Jesús Kristur fórnaði líf sínu til að bjarga mönnum og heimi. Pelíkanaklæðinu er komið fyrir við altarið og blasir við söfnuðinum allt til páskamorguns. Þá er það borið í skrúðhús og dúkur og allir altarismunir eru bornir í kirkju til að fagna að dauðinn dó en lífið lifir. Þegar klæðinu hefur verið komið fyrir við altarið eru fimm rauðar rósir lagðar á altarið og blómin eru tákn um síðusár Jesú Krists.